fös. 22. jan. 2021 21:04
Svíinn Jim Gottfridsson umkringdur af slóvenskum leikmönnum í viðureign þjóðanna í kvöld.
Gríðarleg spenna eftir jafntefli Svía og Slóvena

Staðan er gríðarlega jöfn og spennandi í fjórða milliriðli heimsmeistaramóts karla í handknattleik í Egyptalandi eftir að Svíar og Slóvenar skildu jafnir í kvöld, 28:28.

Leikurinn var hnífjafn og spennandi allan tímann. Svíar voru yfir í hálfleik, 15:14, og í seinni hálfleiknum var jafnt á flestum tölum. Matej Gaber tryggði Slóvenum stigið með því að jafna á síðustu stundu eftir að Hampus Wanne hafði komið Svíum í 28:27.

Fyrir lokaumferðina eru Svíar og Egyptar með 6 stig en Rússar og Slóvenar með 5 stig. Þessi fjögur lið mætast innbyrðis á sunnudaginn en þá leika Svíar við Rússa og Slóvenar við Egypta. Það eru því nánast tveir úrslitaleikir um sæti í átta liða úrslitunum. Hvíta-Rússland með 2 stig og Norður-Makedónía, sem er án stiga, eru hin tvö liðin í milliriðlinum.

Slóvenía: Dragan Gajic 6, Miha Zarabec 5, Blaz Blagotinsek 4, Jure Dolenec 4, Borut Mackovsek 3, Blaz Janc 2, Nejc Cehte 2, Dean Bombac 1,  Matej Gaber 1.

Svíþjóð: Hampus Wanne 7, Valter Chrintz 5, Jim Gottfridsson 4, Jonathan Carlsbogard 3, Linus Persson 3, Alfred Jonsson 2, Felix Claar 1, Anton Lindskog 1, Fredric Pettersson 1, Max Darj 1.

 

til baka