lau. 23. jan. 2021 07:00
Ómar Ingi Magnússon í hörðum slag gegn Frökkum.
Gamla góða íslenska seiglan enn til staðar

Frakkland vann Ísland 28:26 í milliriðli 3 á HM karla í handknattleik í Egyptalandi í gær. Var þetta annar leikur Íslands í milliriðlinum og sá fimmti í keppninni. Eftir þrjú töp er endanlega ljóst að Ísland á ekki möguleika á því að komast áfram í 8-liða úrslit keppninnar.

Í öllum tilfellum hefur liðið tapað jöfnum leikjum naumlega og því hefur ekki vantað mikið upp á til að vera í baráttunni um að komast í 8-liða úrslitin. Sama var upp á teningnum í gær en Frakkar náðu að tryggja sér sigur með því að vera sterkari á síðustu fimm mínútum leiksins eða svo.

Frammistaða íslenska liðsins var góð í gær. Franska liðið er hins vegar betra en það íslenska og þannig hefur það verið síðustu þrjá áratugina. Leikir liðanna verða þó oft jafnir og Ísland vinnur af og til. Liðin gerðu til dæmis jafntefli á HM í Katar árið 2015 þótt þau úrslit væru ekki í neinum sérstökum takti við gengi liðanna í mótinu en Frakkar urðu þá heimsmeistarar.
Íslensku leikmennirnir höfðu greinilega trú á að þeir gætu unnið Frakkana og voru mjög vel stemmdir. Mun ákveðnari í sínum aðgerðum þegar þeir fengu boltann og virtust njóta þess að spila hörkuleik gegn Frakklandi á stórmóti.

Möguleikarnir á því að vinna voru sannarlega fyrir hendi enda hafði Ísland tveggja marka forskot um tíma í síðari hálfleik. Eins og leikurinn blasti við mér var vendipunkturinn í stöðunni 24:24. Íslendingar fengu þá tvö tækifæri til að ná aftur forystunni en náðu ekki að nýta tvær sóknir í röð. Frakkar gáfu ekki fleiri færi á sér, náðu forystunni og lönduðu sigri.

Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

til baka