þri. 26. jan. 2021 16:16
Skotgöt sáust á fimm stöðum á skrifstofuhúsnæði Samfylkingar.
Útflattar kúlur fundust á skrifstofu Samfylkingar

Að minnsta kosti tvær útflattar blýkúlur, að líkindum 22 kalíbera byssukúlur, fundust þegar tæknideild lögreglunnar fór yfir vettvang í skrifstofuhúsnæði Samfylkingarinnar í Sóltúni eftir að skotið hafði verið á húsið í síðustu viku. Þetta staðfestir Karen Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is. 

Samkvæmt heimildum mbl.is er gert er ráð fyrir því að loft- eða gasbyssa hafi verið notuð við skotárásina en hægt er að nota smærri byssukúlur í slíkar byssur. 

Sex kúlugöt voru sjáanleg á rúðum hússins. Fundust útflöttu kúlurnar þegar verið var að fjarlægja glerbrot eftir árásina. „Það fannst útflatt blý og menn frá tæknideild lögreglu reiknuðu með því að að þetta væru 22 kalíbera kúlur,“ segir Karen. 

 

 

Árásin var gerð að kvöldi síðasta fimmtudags eða aðfaranótt föstudags í síðustu viku. Starfsmaður sá ummerki árásarinnar þegar hann kom til vinnu um klukkan 09.00 að morgni föstudags. 

Miðlæg deild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fer með rannsókn málsins en hún vildi ekki tjá sig um framgang rannsóknarinnar þegar eftir því var leitað. 

 

 

 

 

 

 

til baka