þri. 26. jan. 2021 20:10
Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefanda.
Skapandi lausnir

„Það eru ekki bara orðin tóm að íslensk bókaútgáfa sé hluti skapandi greina. Heimsfaraldur og farsóttir eru ekki einungis frjór jarðvegur fyrir skáldskap og fræðibækur heldur líka fyrir nýjar og skapandi lausnir á fleiri sviðum bókmenningar,“ sagði Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, í ávarpi sínu á Bessastöðum áður en Íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent í 32. sinn.

Heiðar Ingi minnti á að grunnurinn að hinu séríslenska jólabókaflóði hafi verið lagður í kreppuástandi eftirstríðsáranna. „Gjaldheyrishöft og innflutningsbönn gerðu að verkum að vöruskortur blasti við landsmönnum í aðdraganda jóla. En þar sem innflutningur á pappír var utan hafta þá var hægt að flytja hann til landsins til að prenta bækur sem síðan voru seldar til jólagjafa. Á þessari skapandi lausn forfeðra okkar hvílir enn í dag allra mikilvægasta stoð íslenskrar bókaútgáfu. Því undanfarin ár hefur allt að 40% af veltu íslensks bókamarkaðar átt sér stað í nóvember og desember,“ sagði Heiðar Ingi og minnti á að reynslan gegnum tíðina hafi kennt okkur að við svipaðar aðstæður og voru í árdaga jólabókaflóðsins standi bókin hvað sterkust.

„Þegar að þrengir og við þurfum að horfa inná við, gleyma okkur um stund, leita fróðleiks, jafnvel huggunar, samkenndar, örvunar, hvatningar eða hverfa á vit ævintýra, þá stendur skáldskapur og fróðleikur bókanna okkur nærri.

Kallar eftir stefnumótun  

Það má telja harla líklegt að eitthvað af þeirri þróun sem varð til nú í skjóli hafta, banna, skerðinga og kreppu muni finna sér farvegi til að lifa áfram og þróast enn frekar. Margföldun á vefsölu og aukinn áhersla á netmarkaðssetningu, heimkeyrsla bóka m.a. með árituðum eintökum höfunda, beinar útsendingar frá upplestrum og spjalli um bókmenntir ofl. En ástand nýliðins árs dró líka rækilega fram veikleika okkar m.a. varðandi stöðu námsbókaútgáfu hér á landi. Þar eigum við verulegt verk að vinna og erum töluverðir eftirbátar nágrannaþjóða okkar varðandi þróun, aðbúnað og opinberan stuðning við námsefnisgerð og útgáfu.

Það er sorgleg staðreynd að á einu ári þegar þróun á rafrænum lausnum í íslensku skólastarfi hefur tekið risastökk inn í framtíðina þá sitja námsbækurnar eftir. Þetta er óásættanleg staða og ekki síst fyrir þær sakir að enn bólar ekki á stefnumótun frá ráðuneyti menntamála varðandi rafræna útgáfu námsbóka. Hér þurfa stjórnvöld að gera miklu betur enda mikilvægi námsbóka óumdeilt við menntun og uppfræðslu nemenda,“ sagði Heiðar Ingi.

Íslensku bókmenntaverðlaunin verða afhent í 32. sinn í kvöld. Frá árinu 2013 hefur verið verðlaunað í þremur flokkum, þ.e. í flokki skáldverka, í flokki fræðibóka og rita almenns efnis og í flokki barna- og ungmennabóka. Að þessu sinni voru lagðar fram samtals 144 bækur frá 36 útgefendum í öllum flokkunum þremur. 

 

Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlauna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis:

 

Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlauna í flokki barna- og ungmennabóka: 

 

Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlauna í flokki fagurbókmennta:

 

 

til baka