sun. 11. apr. 2021 06:00
Margir bíða spenntir eftir að slaka á ströndinni og horfa á mannlífið eftir að hafa upplifað mikla einangrun.
Ferðalög styrkja andlega heilsu

Margir bíða færis eftir að geta ferðast óhindrað á ný eftir kórónuveirufaraldurinn. Sérfræðingar telja að ferðalög eftir faraldurinn geti átt veigamikinn þátt í að styrkja andlega heilsu fólks og auka lífsgæði þess. Þetta kemur fram í New York Times. 

Veita kærkomið frí frá streitu

„Ferðalög gefa okkur kost á að komast í frí frá hugsunum okkar og þeim tilfinningum sem hafa heltekið okkur síðastliðið ár vegna kórónuveirunnar,“ segir Vaile Wright, klínískur sálfræðingur. „Ferðalög veita okkur kærkomið frí frá þeim rútínum sem við höfum þurft að koma á til þess að þola streituna sem fylgdi faraldrinum. Þá minna ferðalögin okkur á þá fegurð sem er til utan veggja heimilanna þar sem við höfum þurft að einangra okkur í heilt ár.“

Niðurstöður kannana American Express Travel sýna að um 78% þeirra sem svöruðu ætluðu sér að ferðast til þess að losa um streitu síðasta árs.

„Viðskiptavinir mínir segja mér að árið hafi verið þeim afar erfitt. Þau elska að ferðast og það breytir öllu fyrir þeirra andlegu líðan að geta loks farið í draumaferðalagið sitt,“ segir Amina Dearmon ferðaráðgjafi. 

Mikilvægt að finna leið til þess að slaka á

Streita og kvíði varð Deepa Patel næstum að ofurliði en hún eignaðist barn í mars á síðasta ári. Hún upplifði mikla einangrun og takmarkaða heilbrigðisþjónustu í kjölfar fæðingarinnar. Hún frestaði námi sínu til þess að getað annast börn sín. Í júlí hyggst hún ferðast ásamt fjölskyldu sinni á sólarströnd í Mexíkó. 

„Ég ætla að sitja á ströndinni og drekka kokteila allan daginn,“ segir hún í gamni. „Ég er tilbúin að fara út og gera ekki neitt í smá stund. Ég vil slökkva á heilanum og horfa á börn mín leika sér. Við hjónin höfum verið með börnin alla daga í heilt ár. Við höfum engar barnapíur  enga hjálp frá öðrum fjölskyldumeðlimum og engin fríkvöld. Það er mjög mikilvægt að við finnum einhverja leið til þess að slaka á,“ segir Patel.

Fékk tíma til þess að syrgja

Mirba Vega-Simcic missti móður sína í Covid-faraldrinum. Hún og bróðir hennar ákváðu að fara í ferðalag til Catskill-fjalla til þess að minnast hennar.

„Þetta var eins og hugleiðsla. Að horfa á fossana og finna vindinn og nálægð móður minnar,“ segir Vega-Simcic. „Fram að þessu hafði ég engan tíma til þess að syrgja. Ég grét og grét en fann líka fyrir aukinni ró. Því þegar ég leit í kringum mig þá var ég ekki heima umkringd mínu kaótíska lífi. Ég var að horfa á eitthvað virkilega fallegt  eitthvað sem leyfði mér að flýja eitt augnablik.“

Einangrunin magnaði upp sorgina

Judith West missti eiginmann sinn rétt áður en faraldurinn skall á á síðasta ári. Hún þurfti því að upplifa sorgina í mikilli einangrun. 

„Sorgarferlið magnaðist í þeirri einangrun sem fylgdi faraldrinum,“ segir West. „Þetta var eins og tvöfaldur skellur.“

West er nú bólusett og er byrjuð að ferðast. „Það að ferðast einsömul er nokkuð sem ég þarf að venjast en ég finn samt fyrir mikilli friðsæld og ró. Hvað er lífið annað en að skapa góðar minningar og upplifanir?“

til baka