sun. 11. apr. 2021 10:00
Stóri plokkdagurinn er 24. apríl.
Hvetur fólk til þess að plokka

Stóri plokkdagurinn er 24. apríl en þá leggja margir leið sína út í göngutúr og safna saman rusli í umhverfinu og hreinsa til. Gunnella Hólmarsdóttir heldur úti instagramreikningi sem heitir Hreinsum jörðina og þar er hún með alls konar ráð til flokkunar og plokkunar. Morgunþátturinn Ísland vaknar heyrði í Gunnellu og fékk meðal annars góð ráð fyrir byrjendur.

Í mörgun bæjarfélögum hefur það tíðkast að björgunarsveitin fari eftir áramótin og hirði upp rusl frá áramótunum sem fólk hefur skilið eftir á víðavangi.

„Væri ekki frábært ef björgunarsveitin gæti einbeitt sér að einhverju öðru og við myndum bara henda ruslinu okkar sjálf,“ segir Gunnella sem reynir að hvetja fólk til þess að breyta hugsun sinni um rusl.

Reynir að vera hvetjandi

„Ég reyni að vera hvetjandi og ég veit að bæjarfélögin eru að hvetja fólk líka áfram og svona en auðvitað þurfum við að finna þetta hjá okkur sjálfum. Við erum alltaf unglingar allt okkar líf. Um leið og mamma og pabbi segja okkur að gera eitthvað þá er það ekki skemmtilegt lengur en ef við kannski finnum þetta hjá okkur sjálfum þá verður þetta skemmtilegt. Mér líður alltaf eins og ég sé einhver ofurhetja þegar ég kem bara með einn poka. Bara ég er að bjarga heiminum sko, mér líður þannig og það er svona hugarfarið sem ég vildi óska þess að við myndum öll aðeins rækta. Að við værum í rauninni að bjarga heiminum af því við erum að gera það, það er bara þannig,“ útskýrir hún.

Fyrst og fremst hugarfarið

Gunnella segir mikilvægt að nota glæra plastpoka þegar fólk plokkar til þess að sorphirðan viti að um plokk er að ræða. Þá segir hún einnig mikilvægt að fólk afli sér upplýsinga um hvernig best sé að skila af sér plokki. Í sumum bæjarfélögum séu sérstakir gámar til þess.

„Þetta er náttúrlega alltaf bara fyrst og fremst hugarfarið og breyta því og minna sig á að allt skiptir máli, hver mjólkurferna og hver skyrdós. Mér finnst fólk oft mikla þetta fyrir sér, fær svona eitthvert stresskast og höndlar ekki að vera með endalaust drasl á borðinu og þarf að skola þetta allt svo vel, en það er ekkert þannig. Fáðu þér bara dall fyrir pappír og dall fyrir plast og svo fer restin bara í almennt svo þetta er ekkert svo bilaðslega flókið. Þú getur síðan fengið þér eins og ég er með inni í þvottahúsi fyrir gler og eitthvað svona en ef þú byrjar á þessu þá ertu bara að gera eitthvað sem er miklu meira en ekki neitt,“ segir hún.

Viðtalið við Gunnellu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

 

til baka