mán. 12. apr. 2021 12:00
Þættirnir Jarðarförin mín fara í sýningu í Þýskalandi.
„Fólk vill þá sjá það sem er öðruvísi og skrítið“

Þættirnir Jarðarförin mín sem voru frumsýndir á Sjónvarpi Símans í fyrra eru að fara í sýningu í Þýskalandi á sjónvarpsstöðinni Arte. Hörður Rúnarsson framkvæmdastjóri Glass River segist alveg viss um það að Laddi, sem leikur aðalhlutverkið í þáttunum, sé að fara að meika það í Þýskalandi í kjölfarið.

„Ég held að það sé ekki spurning sko. Ef einhver vel valinn vinur hans talar fyrir hann verða þeir í sameiningu alveg geggjaðir sko,“ segir Hörður en þættirnir verða talsettir á þýsku.

Dreifing á efni er að verða víðtækara

„Það sem við erum að sjá er svona afrakstur þess sem íslenski kvikmyndaiðnaðurinn hefur verið að gera síðustu árin. Að sækja fram hvað varðar þekkingu og gæði og að vera til sóma erlendis og dreifing á efni er að verða víðtækari,“ segir Hörður, spurður út í það hvað varð til þess að þættirnir fengu sýningartíma úti.

 

„Þemað í þessu er náttúrulega mjög alþjóðlegt. Þótt það sé skrítið að maður ætli að jarða sjálfan sig er það samt alþjóðlegt þema að við þurfum öll að díla við dauðann einhvern tímann og gera upp lífið svo það er svona það sem er hægt að „relatea“,“ útskýrir hann enn fremur.

Fólk vill sjá það sem er öðruvísi og skrítið 

Hörður segir heiminn vera að minnka þegar kemur að kvikmyndagerð og segir að fólk sé farið að horfa á fjölbreyttara efni frá mörgum löndum.

„Maður er sjálfur farinn að horfa miklu meira á alþjóðlegt efni og hættur að spá í það á hvaða tungumáli það er þannig séð sko. En í leiðinni er líka að verða til bransi sem segir sögur sem eru „local“. Fólk vill þá sjá það sem er öðruvísi og skrítið í hinum löndunum. Sem er alveg skemmtilegt,“ segir hann.

Hörður segir að þættirnir Jarðarförin mín hafi upphaflega bara verið framleiddir fyrir íslenskan markað og því gaman að þættirnir skuli vera að fara a erlendan markað.

Viðtalið við Hörð má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

 

 

til baka