mán. 12. apr. 2021 18:30
Rapparinn Kilo var gestur í Þvottahúsinu.
„Ég vissi ekki hvað ég hataði sjálfan mig mikið“

Rapparinn Garðar Eyjförð, betur þekktur undir listamannsnafninu KILO, hefur átt skrautlega ævi. Garðar leiddist út í harða fíkniefnaneyslu og glímdi við mikið sjálfshatur langt fram á fertugsaldurinn. Í dag hefur hann verið edrú í 14 til 15 mánuði. 

Garðar var gestur bræðranna Gunnars Dan og Davíðs Karls Wiium í hlaðvarpsþáttunum Þvottahúsinu. Með honum var kvikmyndagerðamaðurinn Davíð Vilmundarson en hann lauk nýverið við gerð á heimildamynd um KILO. 

„Ég vissi ekki hvað ég hataði sjálfan mig mikið. Ég „literally really hated myself“ án þess að vita það. Ég var svona „selfdestructive“, í mörg mörg ár. Ég var bara að leika mér. Aldrei að spá í afleiðingarnar,“ sagði Garðar. 

Garðar er fæddur og uppalinn í Keflavík en flutti ásamt fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna þegar hann var fjögurra ára og bjó þar í 10 ár. Þar kynntist hann rapptónlistinni en hann fór þó ekki að búa til sína eigin tónlist fyrr en hann var kominn yfir tvítugt.

Hann var í harðri fíkniefnaneyslu þegar hann samdi fyrstu lögin og segir að það hafi verið mikil áskorun að læra að búa til tónlist edrú. „Ég þurfti alltaf að vera víraður eða útúrkókaður til að skrifa,“ segir Garðar og bætir við að hann hafi ekki getað samið tónlist án fíkniefnanna. 

Platan hans Heart of Gold, sem kom út á síðasta ári, var sú fyrsta sem hann samdi edrú.

Fíkniefnaneyslan var beintengd tónlistarferlinum en þegar hann byrjaði að koma fram var honum gefið mikið magn af fíkniefnum og þar kynntist hann kókaíninu. 

Árið 2019 fékk hann hjartaáfall en hann hafði þá verið vakandi í virkri neyslu í fimm daga. Hann segir að það hafi ekki hjálpað til að hann var í mikilli ofþyngd þegar atvikið átti sér stað. 

„Maður heldur að maður sé ódauðlegur þangað til eitthvað svona gerist. Það er „the scariest moment in my life“. En það var ekki nóg til að hætta. Ég fór aftur á „cocaine bender“ 10 dögum eftir að ég kom heim af spítalanum,“ segir Garðar. Á þeim tímapunkti vissi hann vel að fíkniefnaneyslan var orðin alvarlegt vandamál en það hafi verið auðveldara að halda áfram en að hætta. 

Eftir mikla sjálfsvinnu og með hjálp frá vinum sínum náði hann að verða edrú og sækir AA-fundi í dag.

Þáttinn er hægt að hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is og í spilaranum hér fyrir neðan.

 

 

til baka