þri. 13. apr. 2021 12:00
Stjórnvöld á Möltu reyna nú að bjarga ferðamannasumrinu 2021.
Borga ferðamönnum fyrir að koma

Stjórnvöld á Möltu gera nú allt til þess að búa svo í haginn að ferðamannasumarið 2021 verði gott. Efnahagur Möltu veltur að miklu leyti á ferðamannabransanum og því hefur ríkisstjórnin ákveðið að verja 3.500.000 evrum í verkefni sem felur í sér að endurgreiða ferðamönnum sem bóka nótt á hóteli á Möltu. 

Allir þeir ferðamenn sem bóka á fimm stjörnu hóteli á Möltu fá 100 evrur frá ríkinu. Þá hafa hótel einnig ákveðið að koma til móts við ferðamenn og þeir fá 100 evru afslátt af verðinu frá hótelinu. Allt í allt sparar því ferðamaðurinn 200 evrur eða um 30 þúsund íslenskar krónur. 

Þeir sem bóka á fjögurra stjörnu hóteli fá 75 evrur frá ríkinu og þeir sem bóka á þriggja stjörnu hóteli fá 50 evrur frá ríkinu. 

Styrkurinn nær aðeins til þeirra sem ferðast á eigin vegum og verða þeir að bóka að minnsta kosti þrjár nætur á Möltu til að fá styrkinn. Hægt er að sækja um styrkinn á vef Visit Malta.

til baka