þri. 13. apr. 2021 15:50
Bergur Þorkelsson, formaður Sjómannafélags Íslands, leggst alfarið gegn samþykkt frumvarps sem leyfir erlend kjör í skipum skráðum á Íslandi.
„Aðför að öllum launþegum í landinu“

„Þetta er gjörsamlega galið,“ segir Bergur Þorkelsson, formaður Sjómannafélags Íslands, í samtali við 200 mílur um frumvarp til laga um um íslenska alþjóðlega skipaskrá sem kynnt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda. „Ég er ekki viss um að Sigurður Ingi [Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra,] hafi lesið frumvarpið.“

Frumvarpið gerir meðal annars ráð fyrir að launakjör skipverja um borð í íslenskum kaupskipum miðist við kjör í því landi þar sem skipverji hefur lögheimili. Tillagan hefur hlotið töluverða gagnrýni og sagði Drífa Snædal, forseti ASÍ, í gær að verði frumvarpið samþykkt muni það heimila félagsleg undirboð á Íslandi.

https://www.mbl.is/200milur/frettir/2021/04/12/heimaland_ahafnar_radi_kjorum_i_islenskum_skipum/

Markmið frumvarpsins er sagt í greinargerð þess vera að hvetja til þess að kaupskipum verði siglt undir íslenskum fána. Jafnframt er það talið „mikilvægt til að viðhalda eftirspurn eftir skipstjórnarmönnum, siglingaþekkingu og reynslu hér á landi“. Bergur segir hins vegar afleiðingar af ákvæðum fumvarpsins gera það að verkum að hið gagnstæða gerist. „Fari þetta óbreytt í gegn er verið að leggja niður íslensku farmannastéttina eins og hún leggur sig,“ fullyrðir hann.

Stéttin dauð í Noregi og Danmörku

Í greinargerð frumvarpsins er meðal annars bent á að sambærileg ákvæði eru í lögum í nágrannalöndum Íslands, meðal annars í Noregi. Bergur segir þetta ekki trúverðugt. „Ég held að menn ættu að kynna sér stöðuna í norska kaupskipaflotanum. Það eru engir Norðmenn á þeim skipum, norska farmannastéttin er útdauð.

Danir innleiddu á sínum tíma alþjóðlega skipaskrá og sama dag og hún tók gildi löbbuðu danskir sjómenn í land og upp landganginn fóru erlendir sjómenn í þeirra stað. Ég held að danska skipafélagið MAERSK sé með um 300 kaupskip og síðast er við vissum var á þeim skipum einn danskur sjómaður,“ útskýrir Bergur.

 

Varasamt fordæmi

Formaðurinn segir „grafalvarlegt“ ef á að leyfa erlendum kjarasamningum að gilda um íslenskan vinnumarkað og það væri að setja varasamt fordæmi. „Þetta er ekki bara aðför að okkar félagsmönnum heldur öllum launþegum í landinu. […] Þetta mun ekki stoppa þarna. Næst verður það flugbransinn og svo koll af kolli.“

Þá gefur hann lítið fyrir þá fyrirvara sem settir eru í frumvarpið sem meðal annars kveða á um laun um borð í kaupskipum skráð á Íslandi verði aldrei lægri en það sem Alþjóðaflutningaverkamannasambandið (ITF) miðar við á hverjum tíma. Sú upphæð nemur 128 þúsund íslenskum krónum á mánuði sem er margfalt lægra en launakjör íslenskra sjómanna, að sögn Bergs.

Magnús M. Norðdahl, sviðsstjóri kjarasamninga hjá ASÍ, gagnrýnir einnig fyrirvara frumvarpsins í Morgunblaðinu í dag. Þar segir hann fyrirvara er byggja á samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) ekki tryggja lágmarkslaun þar sem ákvæðin sem um ræðir eru aðeins viðmið er varða ríki sem ekki hafa leiðir til að ákveða lágmarkslaun.

https://www.mbl.is/200milur/frettir/2021/04/12/thad_er_engin_vorn_fyrir_launafolk/

til baka