sun. 1. ágú. 2021 19:37
Pamela Innes, Unnur Dís Skaptadóttir og Anna Wojtynska vinna saman að því að rannsaka upplifun aðfluttra í byggðarlögum á landsbyggðinni. Verkefnið er stórt og tímafrekt.
Alhæfingar einkenna umræðuna

Þrír fræðimenn vinna nú að verkefni sem snýr að því að rannsaka upplifun aðfluttra Íslendinga og erlendra innflytjenda af aðlögun í byggðarlögum á landsbyggðinni. Fræðimennirnir eru Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, Pamela Innes, dósent í mannfræði við Háskólann í Wyoming, Bandaríkjunum, og Anna Wojtynska, nýdoktor í mannfræði við HÍ.

„Við höfðum allar komið að rannsóknum á aðstæðum innflytjenda á Íslandi og vildum sameina krafta okkar í þessu verkefni,“ segir Unnur. „Ég og Pamela ákváðum að sækja saman um styrk frá Vísindasjóði Bandaríkjanna, sem við svo fengum. Síðan fengum við Önnu með okkur í verkefnið sem nýdoktor.“ Tæplega 900 þúsund bandaríkjadölum, jafngildi tæplega 112 milljóna króna, var veitt til verkefnisins. 

Anna segir hana og Pamelu sjálfar taka með sér inn í verkefnið ákveðna reynslu af því að vera innflytjendur á Íslandi. Anna kemur frá Póllandi hefur búið hér í næstum 20 ár en Pamela er frá Wyoming og kom hingað fyrst fyrir um tíu árum. „Engin okkar hefur þó búið á strjálbýlu svæði, hvorki á Íslandi né annars staðar,“ bætir Unnur við.

Einblínt á landsbyggðina

Þær stöllur dveljast tvo til þrjá mánuði á hverjum stað fyrir sig áður en farið er á þann næsta. „Við tökum viðtöl við fólk og tökum þátt í viðburðum sem haldnir eru í bæjarfélögunum,“ segir Unnur. „Við tölum við mismunandi hópa fólks, fólk sem hefur flutt þangað frá öðrum löndum, fólk sem hefur flutt frá öðrum bæjarfélögum en einnig aðra bæjarbúa til að fá mynd á hvað þeim finnst um þær breytingar sem eru að verða á svæðinu er fólk flyst þangað. Við spyrjum fólk hvað það telji mikilvægt og skilgreinum það ekki fyrir það.“

Pamela bætir við: „Vanalega gerum þetta einfaldlega með því að dveljast á staðnum, hefja samræður við fólk og spyrja það um aðra sem við gætum rætt við.“ Stundum hafi þær þó tengiliði á svæðinu áður en komið sé þangað sem geti svo bent þeim á viðmælendur sem svo bendi þeim á aðra. „Þetta er kallað snjóboltaaðferðin,“ segir Unnur.

Aðspurðar segja þær stöllur nokkrar ástæður fyrir því að þær einblíni á byggðarlög úti á landi en ekki á höfuðborgarsvæðinu. „Það hefur verið gerður fjöldi rannsókna á aðstæðum innflytjenda á þéttbýlum stöðum en það er nú vaxandi áhugi á strjálbýlli svæðum í Evrópu,“ segir Unnur. „Hingað til hefur verið gert ráð fyrir því að strjálbýl svæði séu einsleit en rannsóknir sýna að þau eru mjög fjölbreytileg,“ bætir hún við.

Fólksflutningar að aukast

Af hverju er mikilvægt að gera svona rannsókn?

„Mér finnst mikilvægt, bæði sem fræðimaður og persónulega, að raddir fólksins, sem fræðimenn skrifa um og stjórnmálamenn taka ákvarðanir um, heyrist,“ segir Pamela. „Við förum á staðina til að tala við þetta fólk og þeirra raddir fá pláss til að heyrast í þeim greinum sem við síðan birtum í kjölfarið. Vegna áhrifa loftslagsbreytinga og þeirra átaka sem eiga sér stað um allan heim verður auk þess sífellt meira um fólksflutninga. Við viljum vita hvernig við gerum ferli flutninga betra fyrir fólk, svo það finni fyrir öryggi, finnist það velkomið og skilji þær áskoranir sem það stendur frammi fyrir. Ég held að það sé mjög mikilvægt.“

Unnur bætir við að það sé mikilvægt fyrir okkur öll að sjá samfélagið sem hreyfanlegt og breytanlegt en ekki eitthvað sem er stöðugt og ávallt eins.

„Fólksflutningar eru stórt umræðuefni um allan heim í dag,“ segir Anna. „Við getum skoðað flutninga fólks á strjálbýlum svæðum betur en í borgum og þess vegna getum við sagt hvernig aðfluttum líður og hvað öðrum finnst um aðflutta. Við viljum bæta við umræðuna,“ segir hún.

„Það er svo mikið af alhæfingum sem notaðar eru í umræðunni sem ekki eru byggðar á staðreyndum,“ bætir Unnur við. „Okkar hlutverk sem fræðimenn er að bæta þekkingu við þessa umræðu,“ segir hún en markmið hópsins er að gefa út nokkrar fræðigreinar byggðar á rannsóknunum, kynna niðurstöðurnar fyrir öðrum og veita ráðgjöf til sveitarfélaga og annara á svæðunum ef þess verður óskað.

Nánar er rætt við Pamelu, Unni og Önnu í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Lesa má greinina í heild sinni hér.

til baka