mið. 22. sept. 2021 18:25
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Vilhjálmur og Guðmundur í hár saman

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfisráðherra í gær og sagði framferði hans bæði ólöglegt og siðlaust þegar kæmi að friðlýsingum og stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs.

Í færslu á Facebook segir Vilhjálmur Guðmund Inga fara „um landið með friðlýsingasprotann í skjóli nætur“ og friðlýsa „út og suður, án alls samráðs og faglegs undirbúnings“.

Guðmundur Ingi segir Vilhjálm á móti tala gegn náttúruvernd og opinberum störfum á landsbyggðinni.

Í færslu Vilhjálms, sem má sjá neðst í fréttinni, segist hann ekki geta orða bundist vegna framgöngu Guðmundar Inga. Vísar hann til þess að umhverfisráðherra hafi haft samband við sveitarstjórnir varðandi frekari stækkun þjóðgarðsins fyrr á þessu ári. Segir Vilhjálmur Guðmund Inga fara út fyrir valdsvið sitt og bjóða störf rétt fyrir kosningar.

„Þar sem er ekki hjá því komist að ræða við sveitastjórnir býður hann framtíðarstörf landvarða heima í héraði til frambúðar nokkrum dögum fyrir kosningar. Hann hefur ekkert fjárveitingarvald né löggjafarvald, en umhverfisráðherra er ekki einu sinni kjörinn Alþingismaður.“

mbl.is

Segir stækkunina ólöglega

Vilhjálmur segir jafnframt að ekki standist lög að friðlýsa heilu vatnasviðin á grundvelli rammaáætlunar og að skilgreina þurfi þau svæði nákvæmlega, en nýlega friðlýsti Guðmundur Ingi vatnasvið Jökulfalls, Hvítár og Tungnaár.

mbl.is

mbl.is

Segir Vilhjálmur aðferð Guðmundar Inga við að stækka þjóðgarðinn vera ólöglega:

„Þá er ólöglegt að stækka Vatnajökulsþjóðgarð án alls samráðs við sveitastjórnir í nágrenninu, eðlilegs undirbúnings innan stjórnsýslunnar með kostnaðarmati, hnitsettum kortum og að ég tali nú ekki um að klára frágang og fjármögnun á fyrri stækkunum.“

Ég vísa á bug öllum fullyrðingum Vilhjálms

Í samtali við mbl.is segist Guðmundur Ingi undrast þessi orð Vilhjálms.

„Það skýtur skökku við að heyra þingmenn, m.a. Vilhjálm Árnason, tala gegn náttúruvernd, eins og hann hefur gert í fjölmiðlum, og opinberum störfum á landsbyggðinni sem fylgja óhjákvæmilega stækkun þjóðgarðs. Ég spyr mig því á móti, hvers konar ráðherra væri það sem myndi ekki láta umtalsverða fjármuni fylgja stækkun á þjóðgarði. Það væri ekki í samræmi við þær skyldur sem ráðherra og stofnunin hafa samkvæmt lögum.“

Guðmundur Ingi segir jafnframt að öll vinna hafi verið í samstarfi við sveitarfélögin. „Ef Vilhjálmur Árnason vill meina að ég hafi farið fram með offari og gassagangi, þá er hann ekki meiri en svo að ég hef hlustað á það sem sveitarfélögin hafa sagt og unnið þetta með sveitarfélögunum en ekki í óþökk þeirra. Ég vísa á bug öllum fullyrðingum Vilhjálms að friðlýsingar séu unnar með ólögmætum hætti.“

 

„Hans pólitík og rétta andlit er einfaldlega að koma fram

Segir Guðmundur Ingi að með orðum sínum sé Vilhjálmur að sýna raunverulegar áherslur sínar.

„Hans pólitík og rétta andlit er einfaldlega að koma fram í þessari umræðu, þar sem hann sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins talar gegn náttúruvernd, gegn opinberum störfum á landsbyggðinni sem fylgja stækkun þjóðgarða.“

Guðmundur Ingi segir jafnframt um lögmæti þess að friðlýsa heilu vatnasviðin að slíkt sé gert út frá ráðgjöf og sérfræðiþekkingu innan ráðuneytisins. „Þetta var niðurstaða ráðuneytisins að vinna ætti málið áfram með þessum hætti og þannig gerði ég það.“

Guðmundur Ingi gefur einnig lítið fyrir þá gagnrýni að hann hafi ekki vald til að ráðstafa fjármunum í verkefnin. Þannig hafi fjármunum verið skipt á milli ráðuneyta samkvæmt fjármálaáætlun.

„Það er svo vald hvers ráðherra, hvort sem hann kemur utan þings eða er þingmaður, að útdeila því fjármagni á sínu málefnasviði. Það skiptir því engu máli hvort ráðherra er utan þings eða innan.“

„Gerist ekki neitt fyrr en ég kem í ráðuneytið að sinna þessum friðlýsingum

Varðandi það af hverju sé verið að ráðast í svona margar friðlýsingar nú þegar styttist í kosningar segir Guðmundur Ingi að þessi mál hafi verið í vinnslu lengi innan ráðuneytisins og í raun sé hann að vinna eftir þeim skyldum sem ráðherra var falið með rammaáætlun. „Það er verið að friðlýsa úr verndarflokki rammaáætlunar sem var samþykkt á Alþingi 2013,“ segir hann og bætir við:

„Það gerist ekki neitt fyrr en ég kem í ráðuneytið að sinna þessum friðlýsingum því þeir ráðherrar sem voru í ráðuneytinu á milli mín og Svandísar Svavarsdóttur, að Björt Ólafsdóttur frátalinni, höfðu engan áhuga á að friðlýsa gegn orkuvinnslu. Það er mergur málsins.“

Þar á hann við Sigurð Inga Jóhannsson og Sigrúnu Magnúsdóttur sem bæði sátu í ráðherrastólnum á vegum Framsóknarflokks.

Segist hann vísa á bug að hann hafi með einhverjum hætti farið á svig við lög með þessum friðlýsingum.

„Við erum að framfylgja vilja Alþingis frá 2013 sem enginn annar ráðherra hefur treyst sér í að gera nema ég,“ bætir hann við. Segir hann friðlýsingarnar mikilvægar „fyrir náttúruvernd í landinu, ímynd okkar lands og til að fylgja eftir þeim ákvörðunum sem Alþingi hefur falið framkvæmdavaldinu.“

Fyrsti kostur að leita til vinstri

Spurður hvort að ummæli Vilhjálms valdi því að hann horfi frekar í aðrar áttir en til Sjálfstæðisflokks varðandi mögulegt stjórnarsamstarf eftir kosningar segir Guðmundur Ingi að Vinstri græn gangi óbundin til kosninga. „En hugur minn stendur til að vinna með flokkum sem eru nær Vinstri grænum í félagslegum og umhverfis- og náttúruverndar áherslum,“ segir hann.

„Minn hugur er skýr að fyrsti kostur sé að leita til vinstri og í grænar áttir.“

 

 

til baka