sun. 26. sept. 2021 19:13
Abigail Dean vinnur nú að sinni annarri skáldsögu.
Kona sem kann að bjarga sér

„Ég hef lengi haft áhuga á sönnum sakamálum, löngu áður en öll þessi vinsælu hlaðvörp komu til sögunnar. Raunar má segja að þessi áhugi hafi byrjað strax í æsku. Sönn sakamál einblína gjarnan á glæpinn sjálfan en hafa minni áhuga á því sem gerist í framhaldinu. Hvað með alla þöglu mánuðina og árin sem fórnarlömbin þurfa að lifa eftir að glæpurinn var framinn eða komst upp? Hvað gerist þá? Það var þetta sem mig langaði til að skoða í þessari sögu, það er ekki einblína á glæpinn sjálfan heldur hvernig fórnarlömbunum gekk að vinna úr áfallinu sem þau urðu fyrir.“

Þetta segir breski metsöluhöfundurinn og lögfræðingurinn Abigail Dean en fyrsta skáldaga hennar, Stúlka A, sem hlotið hefur mikið lof, er komin út hjá Útgáfunni í íslenskri þýðingu Ingunnar Snædal.

 


Horfði til raunverulegra mála

– Horfðirðu til einhverra raunverulegra sakamála meðan þú varst að vinna að bókinni?

„Já, ég gerði það. Eitt var mál Fred og Rose West hérna í Bretlandi en þar öðlaðist heimilið sem brotin voru framin á eiginlega sitt eigið líf og var eyðilagt eftir að glæpirnir komust upp enda hefði enginn getað hugsað sér að búa þar. Þetta er þó í andstöðu við vilja Lex í Stúlku A en hún vill varðveita æskuheimili sitt. Annað er Turpin-málið í Bandaríkjunum, þar sem hjón voru dæmd í lífstíðarfangelsi árið 2019 fyrir að vanrækja og pynta þrettán börn sín. Þar lúrði grimmdin bak við saklausa ímynd hinar ósköp venjulegu og ljúfu úthverfafjölskyldu. Sá vinkill er ekki síður áhugaverður.“

Enda þótt myrkur hvíli yfir sögunni vildi Abigail, eins og hún kom inn á hér að framan, að hún snerist öðru fremur um von og þrausteigju og þess vegna liggur snemma fyrir að systkinin sleppa úr prísundinni. Meiri áhersla er á afleiðingarnar á sálarlíf þeirra eftir að þau verða fullorðin. „Lex Gracie er fararstjóri okkar gegnum þessa vegferð og sú staðreynd að hún horfir praktískum augum á heiminn og býr að ríkum húmor og kaldhæðni litar óhjákvæmilega söguna. Lex er í eðli sínu kona sem kann að bjarga sér og rödd hennar er rödd vonar. Þrátt fyrir erfiða æsku er hún staðráðin í því að gera eitthvað við líf sitt.“

Viðtökurnar hafa komið Abigail á óvart. „Ég á ekki orð til að lýsa undrun minni á velgengni bókarinnar; þetta er eiginlega súrrealískt. En virkilega gaman að fleiri en fjölskylda mínir og vinir hafi lesið hana. Satt best að segja er ég enn þá í hálfgerðu sjokki. Ég hef skrifað síðan ég var barn en alltaf verið treg að deila skrifum mínum með öðrum. Ég er hálfgerð skræfa þegar kemur að því.“

Hún hlær.

Eiginlega bara galið

„Ég geri mér grein fyrir því að það hljómar eins og hver önnur lumma en þetta er eigi að síður draumur sem er að verða að veruleika. Ég hef alla tíð haft mikið yndi af skáldsögum; söguþræðinum, ólíkum persónum og svo framvegis. Haft mína eigin sýn og átt í einkasambandi við persónurnar. Að heyra að bláókunnugt fólki eigi núna í samskonar sambandi við persónur sem ég sjálf hef skapað er alveg ótrúlegt. Eiginlega bara galið. Þegar ég skóp þessar persónur bjóst ég aldrei við að neinn annar en ég sjálf myndi kynnast þeim. Gleði er fyrsta orðið sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um þetta ævintýri. Ósvikin gleði.“

Nánar er rætt við Abigal Dean í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

 

til baka