lau. 25. sept. 2021 13:32
Nike segir
Nike og Costco kvarta undan vöruskorti

Bandaríski íþróttavöruframleiðandinn Nike og bandaríski smásölurisinn Costco segja vöruskort og tafir á afhendingum mikið vandamál.

Nike segir að skortur á starfsfólki í Asíu og lokanir vegna heimsfaraldurs hafi haft mikil áhrif. Costco hefur gripið til þess að leigja skip og sett takmarkanir á hversu mikið af ákveðnum vörum hver viðskipta­vin­ur get­ur keypt.

Starfsmannaskortur í Asíu

Nike segir að vandamálið muni hafa áhrif á framleiðslu og skóafhendingu þeirra fram á næsta vor þar sem fyrirtækið glími við flutningsmál og starfsmannaskort í Asíu.

Verksmiðjur Nike í Víetnam og Indónesíu, sem framleiða um 75% af skóm fyrirtækisins, hafa orðið fyrir barðinu á staðbundnum lokunum vegna heimsfaraldursins. Í Víetnam hefur fyrirtækið til að mynda þurft að loka í 10 vikur á þessu ári.

Þá hefur einnig tíminn sem það tekur að fá vörurnar frá Asíu til Norður-Ameríku tvöfaldast, úr um 40 dögum í 80 daga. 

 

Setja takmarkanir á klósettpappír

Costco hefur aftur sett á regl­ur varðandi hversu mikið af ákveðnum vörum hver viðskipta­vinur get­ur keypt til að draga úr því að fólk hamstri vörur þeirra. Á þetta við um vörur eins og salernispappír, vatn í flöskum og hreinsiefni. 

Fyrirtækið segir að viðskiptavinir þess glími nú aftur við kvíða vegna Covid-19-heimsfaraldursins og hamstri því vörur líkt og var gert við upphaf faraldursins.

tengill

Costco segist einnig vera í erfiðleikum með að finna vörubíla, ökumenn og gáma til að koma vörum í verslanir sínar.

Til að reyna að leysa vandann við að flytja vörur milli heimsálfa hefur fyrirtækið nú leigt þrjú skip til að flytja vörur milli Asíu og Norður-Ameríku.

til baka