sun. 26. sept. 2021 16:12
Ísak Bergmann Jóhannesson er kominn á blað í dönsku úrvalsdeildinni.
Fyrsta mark Ísaks í dönsku deildinni

Skagamaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði sitt fyrsta mark fyrir FC Köbenhavn í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Ísak, sem kom til danska liðsins frá Norrköping í síðasta mánuði, kom inn á sem varamaður á 77. mínútu gegn Nordsjælland á útivelli og þakkaði fyrir sig með því að skora fimmta mark liðsins í stórsigri, 5:1, þremur mínútum síðar.

Andri Fannar Baldursson og Hákon Arnar Haraldsson voru ekki í leikmannahópi FCK sem er áfram stigi á eftir Midtjylland í toppbaráttunni. Midtjylland, með Elías Rafn Ólafsson í markinu, vann Randers 1:0 fyrr í dag og er með 24 stig en FCK er með 23 stig.

Þá lék Aron Elís Þrándarson allan leikinn með OB sem gerði jafntefli, 1:1, við Viborg á útivelli. OB er í sjöunda sæti deildarinnar með 11 stig.

til baka