sun. 26. sept. 2021 20:46
Meðalaldur alþingismanna mun lækka eftir þessa kosningar, en ekki er þó um mikla breytingu að ræða frá upphafi síðasta kjörtímabils.
Örlítið yngra þing

Mikil endurnýjun verður á komandi þingi, en miðað við stöðuna núna, að því gefnu að ekki komi til endurtalningar sem muni hafa áhrif á heildarniðurstöðuna, þá stefnir í að 25 nýir þingmenn taki sæti á Alþingi. Þó nokkuð af ungu fólki er að koma inn á þingið, en einnig nokkrir sem eldri eru. Aldurssamsetningin mun þó lítið breytast miðað við fyrra þing.

Ekki eru þessir nýju þingmenn þó allir glænýir, en þær Hildur Sverrisdóttir hjá Sjálfstæðisflokki og Þórunn Sveinbjarnardóttir hjá Samfylkingu hafa áður setið á þingi. Þá var Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra þrátt fyrir að vera ekki kjörinn þingmaður fyrir Vinstri græn.

Úr rúmlega 49 árum í tæplega 49 ár

Þegar meðalaldur síðasta þings er skoðaður kemur í ljós að við upphaf þings fyrir fjórum árum var hann rúmlega 49 ár. Við lok þings var meðalaldurinn svo rúmlega fjórum árum hærri, eða um 53 ár, en þá hafði fólk skiljanlega elst um fjögur ár, en á móti kom þó að heildaraldursárum þingmanna hafði fækkað um 17 með komu Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur í stað Þorsteins Víglundssonar hjá Viðreisn og með komu Þórarins Inga Péturssonar í stað Þórunnar Egilsdóttur sem lést á kjörtímabilinu.

Meðalaldur nýrra þingmanna er hins vegar um 45,5 ár og lækkar það því aðeins meðalaldur á þingi. Ekki er þó um mikla breytingu að ræða, heldur verður meðalaldur þingmanna nú rétt tæplega 49 ár og muna um hálfu ári miðað við meðalaldur þingmanna sem tóku sæti við upphaf síðasta kjörtímabils.  

mbl.is

til baka