sun. 26. sept. 2021 23:04
Olaf Scholz ávarpar stuðningsfólk sitt fyrr í kvöld.
Sósíaldemókratar með örlítið forskot

Flokkur sósíaldómkrata hefur náð lítilsháttar forskoti á flokk kristilegra demókrata Angelu Merkel Þýskalandskanslara í kosningum sem fram fóru í Þýskalandi í dag. Kosningarnar eiga eftir að ráða því hver taki við kanslarastólnum á eftir Merkel. 

Flokkarnir tveir hafa báðir kallað eftir stjórnarmyndunarumboði í kvöld. Hvor flokkur um sig virðist vera að fá um fjórðung kjósenda, en óljóst er hvor þeirra verður stærstur í landinu þegar öll atkvæði hafa verið talin. 

Sósíaldemókratar hafa fengið um 25,9 til 26% af töldum atkvæðum en kristilegir demókratar um 24,1 til 24,5% atkvæða. „Þetta verður löng kosninganótt,“ sagði Olaf Scholz, fjármálaráðherra landsins og kanslaraefni sósíaldemókrata við AFP. Scholz sagði ljóst að stór hluti Þjóðverja vilji nýja ríkisstjórn og að „næsti kanslari heiti Olaf Scholz“.

Fari sem fram horfir munu kristilegir demókratar þurfa að sætta sig við verstu kosningu frá síðari heimsstyrjöld. Armin Laschet, kanslaraefni kristilegra demókrata, sagði þó við þýska fjölmiðla fyrir skömmu að úrslitin liggi enn ekki fyrir og hét hann því að flokkurinn myndi gera allt sem í hans valdi stæði til að mynda ríkisstjórn íhaldssambandsins. 

 

 

 

til baka