lau. 30. okt. 2021 07:00
Bókin Börnin baka er á leið í verslanir um þessar mundir. Í bókinni má finna einfaldar og fjölbreyttar uppskriftir.
Eiga bestu stundirnar í eldhúsinu

Berglind Hreiðarsdóttir og dóttir hennar Elín Heiða ákváðu að eyða sumrinu saman í að gera Börnin baka, uppskriftabók fyrir börn sem væntanleg er í verslanir bráðlega. Elín Heiða bjó nánast allar uppskriftirnar í bókinni til sjálf og þykir einstaklega lunkin í eldhúsinu þar sem hún gerir meðal annars, kökur, brauðbollur og pítsukodda. 

„Þegar hún var að gera brauðbollurnar gleymdi hún síðan að setja lokið á hrærivélina og það fór allt út um allt í eldhúsinu. Sem er allt í lagi. Börn læra af reynslunni og þurfa ekki að vera fullkomin í eldhúsinu frekar en við fullorðna fólkið,“ segir Berglind sem margir þekkja af síðunni Gotterí

Elín Heiða hefur alla tíð sýnt eldhúsinu áhuga enda ung að aldri þegar henni var boðið upp á að vera með þar.  

„Við ákváðum því að setja saman þessa bók sem er góð fyrir börn og unglinga sem hafa gaman af því að baka og leika sér í eldhúsinu. Uppskriftirnar eru fjölbreyttar og flestar einfaldar svo allir sem kunna að lesa og þekkja aðeins á tæki og tól í eldhúsinu sínu ættu að geta bjargað sér. Yngri börn gætu þurft smá aðstoð og síðan eru þetta allt vinsælar uppskriftir sem mömmur og pabbar geta gert líka,“ segir Berglind. 

 

Elín Heiða á sér uppáhaldsrétt í nýju bókinni. 

„Mitt uppáhald eru pítsukoddarnir. Ég elska að baka þá. Svo eru kókoskúlurnar alltaf góðar líka,“ segir hún.

Þrátt fyrir mikla hæfni í eldhúsinu stefnir Elín Heiða ekki að því að verða kokkur eða bakari því íþróttir eiga hug hennar allan í dag.  

„Mig langar að komast í WNBA í körfubolta.“

Þær mæðgur eru sammála því að þegar börn og foreldrar vinna saman í eldhúsinu, þá gerist eitthvað mjög sérstakt. 

„Það eru oft mestu gæðastundirnar sem skapast í eldhúsinu þegar fjölskyldan er samankomin þar, að taka til mat eða baka. Okkur finnst samt mikilvægt að börn fái að æfa sig og fái leiðsögn hjá foreldrum eða ættingjum til þess að geta bjargað sér sjálf í eldhúsinu þegar fram líða stundir.

Það er því sniðugt að kenna yngri börnum heitin á þeim tækjum og tólum sem verið er að nota, kenna þeim að vigta og nota tækin í eldhúsinu. Eins er mikilvægt að fara varlega í eldhúsinu og að ganga frá eftir sig.“ 

Hvað með þá sem kunna ekki að baka?

„Það ættu allir að geta bakað svo lengi sem uppskrift og hráefnum er fylgt eftir af nærgætni með viljann að vopni. 

Það eru einmitt nokkur góð bakstursráð fremst í bókinni okkar sem gott er að tileinka sér áður en farið er af stað ásamt því sem leiðbeiningamyndir fylgja flóknari uppskriftum.“

 

Hvernig verða mánuðirnir fyrir jólin hjá ykkur?

„Ætli við verðum ekki svolítið í því að pakka og keyra út bækur í verslanir ásamt því að kynna bókina. Við ætlum þó ekki að láta bókagleðina gleypa aðventuna frá okkur því við elskum að baka piparkökur, smákökur og dúllast á þessum tíma svo þetta verður líklega allt gert í bland. Svo borðum við bara piparkökur á meðan við keyrum út bækurnar.“

Það er eitthvað ótrúlega sjarmerandi við heimili þar sem bakað er og er Elín Heiða sammála því. 

„Það er alltaf góð lykt þegar verið er að elda og baka eitthvað gott. Það er svo notalegt. Auðvitað er ekki alltaf tími fyrir slíkt en ég hvet alla til að reyna að gera það sem oftast og bara njóta sín að dúllast og spjalla saman á meðan brasað er í eldhúsinu,“ segja þær. 

Elín Heiða er viss um að áhugi hennar á bakstri hafi smitast yfir í vinina. 

„Ég er mjög oft að fá vini mína til að baka og þá sérstaklega hjá mér. Það er svo góð aðstaða til þess að baka heima.“

 

Kókoskúlur

Kókoskúlur eru eitt það einfaldasta sem hægt er að útbúa en um leið eitt það allra besta. Það er ekki margt betra en ísköld kókoskúla beint úr kælinum. Hér þarf að vera tilbúinn að hnoða og verða pínu súkkulaðihúðaður á höndunum á meðan verið er að rúlla í kúlur. Þá er gott að þvo sér um hendurnar og velta næst kúlunum upp úr kókosmjöli.

Uppskrift:

200 grömm smjör við stofuhita

80 grömm sykur

60 grömm púðursykur

2 teskeið vanilludropar

30 grömm bökunarkakó

240 grömm Til hamingju-tröllahafrar

3 matskeiðar vatn

150 grömm Til hamingju kókosmjöl (til að velta upp úr)

Aðferð:

Setjið öll hráefnin nema kókosmjöl í skál og hnoðið saman í höndunum.

Rúllið í litlar kúlur sem eru svipaðar á stærð og veltið upp úr kókosmjöli.

Kælið í að minnsta kosti klukkustund.

til baka