sun. 24. okt. 2021 10:00
Haraldur Ari Karlsson var aðeins fimm ára þegar faðir hans fórst í sjóslysi.
„Sennilega er hvorki tangur né tetur eftir af pabba“

Haraldur Ari Karlsson var aðeins fimm ára gamall þegar faðir hans fórst í sjóslysi sem átti sér stað um borð í Breka VE 61 við Vestmannaeyjar fyrir 29 árum síðan. Það er mikið áfall að missa foreldri, hvort sem um móður eða föður er að ræða. Þrátt fyrir að Haraldur hafi verið ungur að árum þegar faðir hans lést þá hefur föðurmissirinn litað allt hans líf og sett sinn svip á tilfinningalífið. Segir Haraldur Ari það hafa tekið tíma fyrir hann að átta sig á því að faðir hans væri farinn. Fyrir fullt og allt. En fjarvera föðurins, Karls J. Birgissonar heitins, hafði verið Haraldi Ara og fjölskyldu eðlileg.  

„Það tók mig nokkrar vikur að fatta það að pabbi kæmi ekki aftur. Við vorum vön því að pabbi væri ekki heima öllum stundum, þannig er það bara þegar menn vinna úti á sjó. Ég átti alveg eins von á því að hann myndi bara koma aftur heim eins og vaninn hafði verið. Það voru alltaf fagnaðarfundir þegar pabbi kom heim af sjónum. Sú staðreynd að hann kæmi ekki aftur var því ansi lengi að síast inn hjá litlum dreng,“ segir Haraldur Ari.

„Í hvert skipti þegar það var bankað á útidyrahurðina heima eða dyrabjöllunni hringt þá var ég viss um að það væri pabbi. Þetta var svona í mörg ár. Ég trúði því af öllu hjarta að hann hefði getað bjargað sér. Fundið einhvern fleka eða eitthvað sem hefði getað komið honum að landi. Ég var lengi með mynd í huga mér af honum; hárprúðum, fúlskeggjuðum og hetjulegum við útidyrnar á æskuheimilinu. Svona eins og maður sér svo oft í bíómyndum.“

 

Breki var lokunin

Kvikmyndabransinn er Haraldi Ara vel kunnugur en hann starfar sem kvikmyndagerðamaður og hefur komið víða við í starfi sínu sem slíkur. Á hann að baki hátt í þriðjahundrað verkefni sem aðstoðarleikstjóri síðasta áratuginn. Hefur hann tekið þátt í margvíslegum verkefnum, allt frá auglýsingum og tónlistarmyndböndum til heimsfrægra bíómynda og sjónvarpsþátta á borð við Game of Thrones. Árið 2010 gerði Haraldur Ari persónulega og hjartnæma stuttmynd þar sem hann fór aftur til fortíðar og fangaði upplifun sína sem fimm ára drengur að missa föður sinn.  

„Ég ákvað að nýta þessa lífsreynslu sem viðfangsefni í lokaverkefninu mínu í Kvikmyndaskólanum. Í dag lít ég á þessa stuttmynd sem eins konar lokun á föðurmissinn. Ég hef aldrei grátið jafn mikið og þegar við sviðsettum slysið sem varð pabba mínum að bana til þess að hafa í myndinni. Það var ekki fyrr en á þeim tímapunkti sem ég skildi hvað hafði gerst og þá áttaði ég mig fyrst á því að sennilega hafi hann látið lífið áður en hann fór fyrir borð,“ segir Haraldur Ari og við tekur svolítil þögn. „Grafískar hugsanir mínar sjá þetta alveg ljóslifandi fyrir sér. En mér þykir vænt um að hafa gert þetta verkefni. Mér finnst ég hafa heiðrað minningu pabba míns að einhverju leyti með því að hafa gert þetta svona,“ segir hann jafnframt, og á þá við stuttmyndina sem fékk nafnið Breki, líkt og skipið sem faðir hans réri á þegar hann fórst.

 

Sárar tilfinningar að fá ekki að kveðja

Haraldur Ari segir frá ansi þungbærum hugsunum sem hann hefur átt við í gegnum tíðina, þá sér í lagi þegar hann var yngri, og tengjast líki föður síns. En það fannst aldrei. Þrátt fyrir umfangsmikla leit með allri tiltækri aðstoð Landhelgisgæslunnar á þessum tíma, bar leitin engan árangur. Hafið hafði tekið föður Haraldar Ara. 

„Ég hafði mjög grafískar hugmyndir í þessum litla heila sem ég átti og spurði mömmu oft erfiðra spurninga. Eins og börn gera. Börn eru með fjörugt ímyndunarafl og ég þurfti að fá einhverja skýringu á því hvar pabbi væri. Ég man ég var að spyrja: „Eru þá bara fiskarnir í sjónum að borða hann núna og eru ormar í augunum á honum,“ og eitthvað svona. Mjög óþægilegar spurningar sem mamma þurfti að gefa svör við. Það voru alveg fullt af spurningum þarna, eðlilega. Mamma reyndi alltaf sitt besta að veita mér einhver svör en ég veit að þessar spurningar tóku oft á hana.“

 

Þó svo að lík föðurins hafi aldrei fundist var samt sem áður haldin jarðarför. Haraldur Ari lýsir jarðarförinni sem fallegri og erfiðri athöfn, og í senn nokkuð óhefðbundinni. Þá aðallega vegna þess að það var engin líkkista eins og oftast er.

„Pabbi týnist náttúrulega bara í sjónum. Það var einhvern veginn enginn endir á þessu fyrir okkur sem eftirlifum hann því við fengum aldrei tækifæri til að sjá lík hans og kveðja hann þannig eins og vaninn er. Í jarðarförinni var stór kross við altarið sem borinn var út úr kirkjunni við lok athafnarinnar eins og gert er með kisturnar. Ég man hvað mér fannst það skrýtið.“ 

 

Staðfesting mikilvæg börnum

Haraldi Ara finnst mikilvægt að börn jafnt sem fullorðnir sem missa foreldri á lífsleiðinni fái að sjá lík foreldra sinna séu þau til staðar. Kistulagnir og aðrar sambærilegar kveðjuathafnir geti haft gríðarmikið að segja fyrir stóra sem smáa aðstandendur. Segir hann það að fá tækifæri til að kveðja geta komið í veg fyrir óbærilegar hugsanir, vonir og þrár um að þeir látnu komi aftur. Enn þann dag í dag á Haraldur það til að hrökkva í kút þegar hann heyrir talað um líkfundi í fjölmiðlum.  

„Sennilega er hvorki tangur né tetur eftir af jarðneskum leifum pabba. Það er erfitt að fá ekki að sjá endalokin með berum augum. Maður rígheldur alltaf í einhverja smá von. Þess vegna er ég talsmaður þess að börn fái að kveðja með því að fá að sjá lík foreldra sinna. Það er ekki nóg að einhver segi þér frá andlátinu, þú vilt fá sönnun fyrir því. Fyrr geturðu ekki lokað á missinn. Annars er maður bara alltaf að leita og bíða eftir því að viðkomandi komi aftur. Maður heyrir fólk alltof oft segja að börn séu of ung til þess að sjá lík en að eiga þá minningu að hafa séð látinn ástvin sinn í kistunni það slekkur á þessari von. Það er svo mikilvægt,“ segir hann, ákveðinn í orðum. 

Stuttur tími sem hefur haft víðtæk áhrif

„Ég hef stundum leitt hugann að því hversu mikil áhrif föðurmissirinn hefur haft á mig og líf mitt vegna þess að ég fékk svo stuttan tíma með honum. Þetta er í raun sáralítil prósenta af lífi mínu en samt syrgi ég hann enn. Og nú hef ég náð pabba mínum í aldri. Pældu í því, ég er orðinn eldri en pabbi minn náði að verða. Ég sá hann fyrir mér sem mann, bara sem einhvern karl. En honum hefur örugglega liðið eins og peyja. Mamma og pabbi eru bara krakkar þegar þetta slysið verður. Mamma 27 ára að missa manninn sinn. Hann 32 ára að deyja frá konunni sinni og tveimur börnum.“

Fjölskyldan hefur syrgt heimilisföðurinn sárt. Allt breyttist á einu augabragði þegar fregnirnar bárust af andláti hans sem litað hefur líf allra fjölskyldumeðlima. Öll hafi þau þó náð að vinna vel úr áfallinu með samheldni og gagnkvæmri virðingu í garð hvors annars. Þessi lífsreynsla kemur til með að fylgja þeim ævilangt en er þeim ekki eins hamlandi og hún var. Tíminn læknar öll sár en þau sár skilja eftir sig ör.    

„Kolla systir fullorðnaðist á núll einni og mamma hefur einbeitt sér mest að velferð okkar Kollu. Þú finnur ekki sterkari konu en mömmu. En þetta er aldrei búið. Þetta verður öðruvísi en er aldrei alveg búið. Sorg er ekki bara þannig að þú sért eins og einhver Ítölsk grátkona í jarðarför með slæðuna yfir þér. Þetta er kannski bara svolítið eins og fá sér tattú. Í staðinn fyrir tattúið er búið að stimpla á hjartað þitt einn dáinn ástvin. Það fer ekki neitt, þetta er bara þarna alveg sama hvað þú reynir að sápa það eins mikið í burtu og þú getur,“ segir Haraldur.

  

Haraldur segist oft hafa heyrt frá þeim sem þekktu til föður hans að hann hafi verið mikið göfugmenni. Manngæska hans lifir enn í hugum og hjörtum þeirra sem fengu að verða á hans vegi. „Pabba var eitt sinn líst sem minnst þunglyndasta manni sem fólk hafði kynnst,“ segir Haraldur. „Það finnst mér góð lýsing á því hvernig hann var,“ segir hann jafnframt.

„Í gegnum tíðina hef ég séð pabba minn í öðrum. Mér fannst svo oft eins og pabbar vina minna líktust pabba mínum. Ég veit ekki hversu oft ég spurði annarra manna pabba hvort að ég mætti kalla þá pabba minn þegar ég var yngri. Það var eins og ég þráði einhverja viðurkenningu. Ekki það að ég hafi einhvern tímann farið að kalla einhverja aðra menn pabba, þetta var einhver hlýja sem mig vantaði. Það var enginn sem sagði nei við mig. En þetta er ekki það. Þetta er bara að fá leyfið. Vera viðurkenndur,“ útskýrir Haraldur.

Á erfitt með að missa og kveðja

Haraldur Ari er faðir þriggja stúlkna. Þær heita Mía Bjarný, Ara Eirný og Una Árný. Má því segja að kvenorkan hafi umlukið hann stóra hluta ævinnar en hann ólst upp með móður sinni, Sigríði Bjarnadóttur, og eldri systur, Kolbrúnu Stellu. Leiðir Haraldar Ara og barnsmóður hans skildu fyrir tæplega þremur árum síðan. Þegar upp úr sambandi þeirra flosnaði fann Haraldur til mikillar sorgar.   

 „Allt sem heitir það að missa eitthvað er erfitt fyrir mig. Ég man þegar ég var í fimmta bekk í grunnskóla og búinn að hafa sama umsjónarkennara frá upphafi, og að þurfa svo að fá nýjan kennara gerði út af við mig. Ég fann fyrir svo mikilli sorg. Bara við það að fá nýjan kennara. Þetta get ég tengt við það að hafa verið svona ungur þegar ég missi pabba minn. Ég fór líka í gegnum langt sorgarferli þegar við barnsmóðir mín skildum. Ég á rosalega erfitt með það að missa fólk frá mér, hvort sem það er varanlega eða ekki. En það er eitt sem ég hef lært af því að fara í gegnum sára lífsreynslu og það er að hlutirnir eru aldrei einhliða. Á eftir vondu kemur eitthvað gott.“

Í dag er Haraldur Ari í sambúð með Brynju Skjaldardóttur. Þau Haraldur og Brynja kynntust í gegnum störf sín í kvikmyndabransanum en Brynja er búningahönnuður og hefur, eins og Haraldur, komið víða við í gegnum árin og starfað með mörgum stórstjörnum.   

„Ég er hamingjusamur og hef það gott. Brynja hefur tekið mér og stelpunum mínum opnum örmum. Ég er bara mjög þakklátur. Öll þessi reynsla hefur gert mig að þeim Haraldi Ara sem ég er í dag og fyrir það ber að þakka því ég er ánægður með mig og það líf sem ég hef skapað mér. En svo er það nú bara þannig að það hefur enginn unnið í leik lífsins. Við náum bara upp í ákveðin „level“ og svo munum við öll tapa einhvern tímann. Ég hræðist það svolítið.“

 

Hræðist dauðann en ekki sjóinn

Þegar Haraldur Ari er spurður út í hafið og hvort að honum standi stuggur að sjónum segir hann svo ekki vera. 

„Sjórinn hræðir mig ekki,“ segir Haraldur Ari. „Ég ferðast með Herjólfi í hvaða veðri sem er og hugsa ekki um það. En ég skil þá sem er hræddir við sjóinn, það er í rauninni enginn botn. Ekkert til þess að spyrna sér upp. En ég á það til að vera frekar lofthræddur. Mér líður ekki vel þegar ég er hátt uppi á fjöllum eða svoleiðis. En hafið hræðist ég ekki, sem er kannski svolítið kaldhæðnislegt ef út í það er farið.

Haraldur Ari lýsir því þegar hann vaknaði eitt sinn upp við vondan draum. Draumurinn snéri að endalokum hans og leið honum eins og það raunverulega væri að eiga sér stað. Í draumnum ætlaði sér einhver að taka hann af lífi. Upplifði hann allt tilfinningarófið í gegnum tiltekinn draum og fór að hræðast dauðann enn frekar.

„Ég er ógeðslega hræddur við dauðann. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það er en ég er hræddastur við þann tímapunkt þegar það slokknar á öllu. Á sama tíma hef ég leitt hugann að því að við séum öll bara atóm. Og í rauninni er ekkert okkar eitthvað merkilegra en hver annar hlutur - dauðir, veraldlegir hlutir. Það er hægt að hugsa þetta á heimspekilegan og djúpan máta en það getur verið hættulegur staður að vera á. Hugurinn getur stundum ruglað mann í ríminu. Mér finnst því mikilvægt að nýta þann tíma sem ég hef akkúrat hér og nú því ef ég geri það ekki þá gæti farið svo að það verði ekkert eftir af honum. Það er dýrmætt að fá að lifa lífinu,“ segir Haraldur Ari að lokum. 

 

 

 

https://www.mbl.is/smartland/samskipti/2021/10/14/eg_fattadi_ekki_sorgina_strax/?fbclid=IwAR2pEEni3YzFMU_quLSmPKRvYWqCyYgdzu3Ig9lMvwCogG5Nvy91pK7OLHk

 

 

til baka