sun. 31. okt. 2021 08:00
Perla Magnúsdóttir veit fátt fegurra en ferðalög á Ítalíu þá sér í lagi um Sorrento-skagann og Amalfi hérað.
„Ég hef alltaf verið hálfgert fiðrildi í mér“

Perla Magnúsdóttir hefur starfað í ferðaþjónustunni á Íslandi í um áratug en hóf nýverið að ferðast með íslenska hópa erlendis sem fararstjóri. Áhugamál hennar eru ferðalög og allskonar útivera. Í raun veit hún ekkert betra en að stunda útiveru í fallegu umhverfi. Þegar Perla starfar sem leiðsögumaður á Íslandi er hún aðallega með bandaríska hópa sem vilja njóta þess að skoða Ísland. 

„Ég hef alltaf verið hálfgert fiðrildi í mér og finnst þess vegna frábært að geta tekið að mér ólík og spennandi verkefni.“

Perla er þekkt fyrir að vera lífsglöð, opin og skemmtileg og alltaf með ljósmyndavélina á lofti. Hún kynntist uppáhaldsferðafélaganum sínum fyrir tíu árum síðan en það er eiginmaður hennar Guðmundur Lúther Hallgrímsson. 

„Ég var svo heppin að fá gleðina í vöggugjöf, og þess að auki átta mig á því mjög ung hvað lífið væri mikið skemmtilegra ef maður markvisst velur að vera gleðimegin í lífinu. Ég vil meina að maður getur átt töluvert skemmtilegra líf ef maður tekur meðvitaða ákvörðun um það!

Hvað ferðalögin varðar, þá er það eitthvað sem kviknaði líka nokkuð snemma hjá mér og í raun sérstaklega eftir að ég fann draumaferðalanginn minn hann Gumma minn fyrir 10 árum síðan. Saman höfum við ferðast til næstum 30 landa, víðs vegar um heiminn. Við ferðumst líka mikið innanlands og erum virk í útivist. Við erum sem dæmi meðlimir í Hjálparsveit skáta í Kópavogi.“  

Amalfi-ströndin er eins og fallegt póstkort

Perla er hrifin af Ítalíu og þá helst Amalfi-ströndinni. 

„Amalfi-ströndin er eitt af þessum svæðum í heiminum sem þú hreinlega getur ekki annað en hrifist af. Það skiptir ekki máli hvert þú ferð þarna, því alls staðar líður þér eins og þú hafir stigið inn í póstkort. Að koma á svæðið í fyrsta sinn er ógleymanleg upplifun!
Sítrónu- og ólífurækt einkenna svæðið, sem og virkilega víðsýnt útsýni - sérstaklega ef þú gengur um svæðið og nýtur þess á tveimur jafnskjótum. Þar að auki er aðeins um 30 til 60 mínútna lestarferð til Pompeii, Vesúvíus og í pizza-borgina Napólí.“

 

Áttu þér uppáhaldsstað að heimsækja á Amalfi-ströndinni?

„Já, klárlega. Uppáhaldsstaðurinn minn er hið yndislega þorp Positano. Þangað er langskemmtilegast að fara gangandi eftir að þú lýkur við hina frægu og dýrðlegu gönguleið Stíg guðanna (e Sentiero degli Dei). Þannig birtist þorpið þér fyrst í órafjarlægð og því nær sem þú kemur, því stórfenglegra verður það. Positano, eins og flestir bæirnir á Amalfi, kúrir í snarbröttum hlíðum Lattari fjallgarðsins, svo það þarf að ganga upp og niður nóg af brekkum til þess að njóta þorpsins.

En það er í góðu lagi að mínu mati, vegna þess að því meira sem þú þarft að hafa fyrir hlutunum, því betur kanntu yfirleitt að meta þá!“

Hvernig myndir þú eyða einum degi á þessum stað?

„Ég myndi vakna í líflega bænum Sorrento og fara á útikaffihús við Tasso-torgið, þar sem ég gæti fylgst með bænum vakna. Þar myndi ég fá mér kaffi latte, croissant og nýkreistan sítrónusafa í morgunmat.

Því næst myndi ég rölta niður á höfn og sjá mögnuðu klettavegginna sem Sorrento bærinn er byggður á. Þar biði mín bátur sem myndi ferja mig til drauma eyjunnar Capri. Bátsferðin er ekki nema 20 mínútur og því væri ég komin snemma á klettaeyjuna sem Katarína litla býr á.

Á Capri myndi ég ganga um eyjuna þar sem hún er gróðursælust og þar sem útsýni er frábært yfir eyjadrangana í kring og Amalfi-strönd Ítalíu. Hádegismaturinn yrði svo tekinn á Capri Rooftop þar sem er yndislegt að sóla sig og njóta sjávarútsýnisins, en þarna er sjórinn túrkís blár.

Í eftirmiðdaginn myndi ég svo kíkja í miðbæinn á Capri og fá mér ískaffi og jafnvel kíkja í nokkrar búðir, áður en ég tæki bátinn aftur upp á meginland. Þegar heim á hótel væri komið myndi ég njóta síðustu sólargeisla dagsins í rólegheitum í hótelgarðinum.

Um kvöldið myndi ég rölta um og finna mér lítið og krúttlegt ítalskt veitingahús, líkt og Titos í bænum Vico Equence. Þar fengi ég mér Aubergine Parmigiana í forrétt, að sjálfsögðu pizzu í aðalrétt og síðan myndi ég klára þessa ítölsku matarveislu á Tiramisu.

Áður en ég færi að sofa myndi ég hitta fleiri hópmeðlimi á hótelbarnum og taka eitt, ef ekki tvö Limonchello skot með þeim, en þessi frískandi drykkur kemur frá svæðinu og eru heimamenn mjög stoltir af honum!“

 

Varla mátti koma tannþræði á milli rútunnar og annarra bíla

Hvað er heillandi við Ítalíu almennt að þínu mati?

„Ítalía er alveg hreint ótrúlegt land og í raun eitt það allra fjölbreyttasta sem ég hef heimsótt. Það er í raun allt við landið sem heillar. Heimssagan og minjarnar frá Rómaveldinu, bragðgóði maturinn, fjölbreytnin í landslaginu, dásamlegu litlu fjallaþorpin, tungumálið og síðast en ekki síst blóðheitur karakter Ítalanna!“

Perla starfar sem leiðsögumaður fyrir Úrval Útsýn á Ítalíu þar sem hún er farastjóri í gönguferð um Amalfi og Sorrento. Hún tekur undir þá skoðun margra að Sorrento-skaginn og Amalfihéraðið sé fallegasti staðurinn á jarðríki og bætir við að fólkið á þessum stöðum sé einnig eftirminnilegt og skemmtilegt.

 

„Skemmtilegasta sagan úr síðustu gönguferð um Amalfi og Sorrento er líklega frá pizzagerðinni, en kokkurinn Antonio kenndi okkur að gera bestu pizzur sem ég hef á ævi minni smakkað! Hann svoleiðis keyrði okkur í gangi á krúttlega pizzastaðnum sínum þar sem við köstuðum deigunum á milli okkar og í loft upp, og stigum svo léttan dans meðan pizzurnar bökuðust í yfir 400 gráða heitum eldofninum. Alveg hreint magnaður karakter hann Antonio og í raun voru allir Ítalarnir sem við áttum í samskiptum við alveg æðislegir!

Mér dettur líka í hug hinn afar spaki Mario rútubílstjóri sem þræddi með okkur í gegnum örmjóu göturnar svo varla mátti koma tannþræði á milli rútunnar og annarra bíla. Danilo frægi barþjóninn á hótelinu okkar gerði svo handa okkur guðdómlega kokteila og síðast en ekki síst Michele sem var aðal gönguleiðsögumaðurinn okkar. Hann sagði okkur frá heimabyggð sinni með mikilli ástríðu, og var alveg heillaður af „Þetta reddast“ og hellisskúta söngnum okkar um Katarínu á Capri! Ég get ekki beðið eftir að fara aftur til Amalfi og njóta alls þess sem svæðið býður upp á!“

til baka