sun. 24. okt. 2021 08:00
Áhugi Hildar Björnsdóttur á laxveiði er nýtilkominn. Hún nýtti sumarið vel og fór í tvær veiðiferðir í Haukadalsá.
Eftirminnilegustu ferðalögin tengjast oft óhöppum

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi átti gott ferðasumar með fjölskyldu, vinum og nýjasta fjölskyldumeðliminum, hvolpinum Philip. Viðhorf Hildar til ferðalaga er afar afslappað. Hún sé þeirrar skoðunar að flestu sé hægt að redda svo lengi sem vegabréf, sími og greiðslukort sé með í för.

Ferðaðistu mikið í sumar?

„Við fjölskyldan ferðuðumst aðallega innanlands í sumar. Ég á ættir að rekja norður til Akureyrar svo við förum þangað minnst einu sinni hvert sumar. Síðastliðið sumar fékk ég skyndilegan áhuga á laxveiði, sem var framhaldið nú í sumar, í tveimur veiðiferðum, báðum í Haukadalsá. Þær voru ekki aflamiklar en ég fékk þó einn á land. Svo tók ég þá skyndiákvörðun með nokkurra klukkustunda fyrirvara að hitta vinkonu mína í París. Ég hafði ekki ferðast úr landi í nærri tvö ár svo ferðin var mjög kærkomin og alveg sérlega eftirminnileg. Við fjölskyldan framlengdum svo sumarið með ferð til Ítalíu um miðjan september sem var stórkostleg í alla staði.“

Hvað stóð upp úr?

„Ítalíuferðin stendur sannarlega uppúr. Við ferðuðumst með vinafjölskyldu til Umbria og náðum góðri framlengingu á sumarið. Veðrið var eins og best verður á kosið og öll áhersla lögð á góða afslöppun. Við heimsóttum lítil þorp, borðuðum stórkostlegan mat og einhverjir gerðu vínframleiðslunni góð skil.“

 

Eftirminnilegasta ferðalagið?

„Við maðurinn minn, Jón Skaftason, erum þekkt fyrir hrakfarir á ferðalögum. Eftirminnilegustu ferðalögin tengjast oft óhöppunum sem við lendum í. Þegar við vorum að kynnast var hann búsettur í London. Í einhverri heimsókninni til hans hugðist hann fljúga með mér heim til Íslands. Flugið var snemma morguns og við ætluðum að panta leigubíl í tæka tíð á flugvöllinn. Jón hringdi í leigubílaþjónustuna og spurði hve langan tíma tæki að aka á flugvöllinn. Jón var ekki ánægður með svörin og sannfærði starfsmanninn um að raunar tæki 50% styttri tíma að aka þessa leið. Bíllinn var bókaður á tíma sem samræmdist þeirri niðurstöðu. Þegar upp var staðið komum við auðvitað alltof seint á flugvöllinn og misstum af fluginu heim. Jón hringdi í leigubílafyrirtækið, öskuillur, sagði ótækt hve seint við hefðum mætt á flugvöllinn og krafði fyrirtækið um endurgreiðslu á fluginu. Leigubílaþjónustan beitti þá krók á móti bragði og sendi Jóni útskrift af samtali hans við starfsmann fyrirtækisins kvöldið áður. Þar kom auðvitað skýrt fram hvernig Jón hafði sannfært starfsmanninn, í löngu máli, um að ferðalagið tæki þessa örstuttu stund. Það var skák og mát.“

Áttu þér draumaferðalag?

„Mig hefur alltaf langað að ferðast til Suður-Ameríku og gefa mér góðan tíma til þess að skoða álfuna. Eins væri algjör draumur að fara með krakkana til Afríku í safarí, þegar þau eru orðin örlítið eldri. Nákvæmlega hvert veit ég ekki. Annars er Ísland auðvitað áfangastaður á heimsmælikvarða og ótalmargt sem þar má skoða betur. Ég hef til dæmis aldrei gert Vestfjörðunum nægilega góð skil og set stefnuna þangað næsta sumar. Reikna með að það verði algjört draumaferðalag.“

Einhver góð ferðaráð?

„Þetta reddast! Ég verð seint talin áhyggjufullur ferðafélagi, mæti seint út á flugvöll og pakka í töskur með litlum fyrirvara. Ef maður er með síma, vegabréf og greiðslukort er sjaldan mikið áhyggjuefni þó eitthvað gleymist. Flestu er hægt að redda, nema maður ferðist á mjög afskekktar og lítt þróaðar slóðir, sem ég mætti gera meira af.“

 

Skemmtilegustu ferðafélagarnir?

„Það er auðvitað fjölskyldan, maðurinn minn og börnin þrjú. Í vor eignuðumst við líka hvolpinn Philip, svartan dverg schnauzer, sem reyndist ótrúlega góður ferðafélagi í innanlandsferðum sumarsins. Hvort sem um var að ræða veiðiferðir eða langar bílferðir eftir endilöngu landinu – aldrei neitt vesen.“

Hvað er framundan?

„Ég vonast til að komast í helgarferð til London í haust. London er uppáhaldsborgin mín, fyrir utan auðvitað Reykjavíkurborg, en þar bjuggum við fjölskyldan í nokkur ár. Mig dreymir líka um aðventuferð til Kaupmannahafnar, aldrei að vita nema maður láti verða af því.“

til baka