þri. 26. okt. 2021 11:30
Jónína Margrét Sigurðardóttir er á breytingarskeiðinu, aðeins 32 ára gömul en hún segir afar mikilvægt að opna umræðu um breytingarskeiðið.
Var aðeins 25 ára þegar hún fann einkenni breytingaskeiðsins

Jónína Margrét Sigurðardóttir var aðeins 25 ára gömul þegar hún fór að finna fyrir einkennum breytingaskeiðsins. Þá vissi hún þó ekki hvað olli þeim kvillum sem hún fann fyrir og flakkaði hún á milli lækna í nokkur ár í leit að svari. 

Það var svo fyrir um ári sem hún hætti á blæðingum en hún er í dag ekki nema 32 ára gömul.

„Þegar ég lít til baka þá get ég tengt við alls konar einkenni sem ég fann fyrir alveg til 2013 sirka. Þá er ég 25 ára gömul, sem er mjög skrítið og það kveikir náttúrulega enginn á því á þessum tíma að ég gæti verið á breytingaskeiðinu. Þetta er svo ofboðslega sjaldgæft að fara á breytingaskeið á þessum aldri,“ sagði Jónína í samtali við Ísland vaknar á K100 í morgun.

https://k100.mbl.is/frettir/2021/10/20/breytingarskeidid_a_ekki_ad_vera_tabu/

Leið eins og hún væri með „lítið skítugt leyndarmál“ 

Segist hún hafa farið í alls kyns rannsóknir vegna einkennanna, meðal annars í heilaskanna og gigtrannsóknir en það var ekki fyrr en hún hætti á blæðingum sem hún leitaði til kvensjúkdómalæknis þar sem hún fór í blóðprufu sem leiddi í ljós hvers kyns var. 

„Þá kemur í ljós að það er mjög mikill estrógenskortur í líkamanum hjá mér,“ sagði Jónína en meðal einkenna sem hún fann fyrir voru þrálátir höfuðverkir, blóðugt tannhold, svefntruflanir, hárlos, skapsveiflur og þunglyndiseinkenni.

Sagði hún að tilfinningin við að uppgötva að hún væri komin á breytingaskeiðið hafi verið ótrúlega erfið en hún sagðist sjálf finna fyrir „bullandi fordómum“ og að sér hafi liðið eins og hún væri með „lítið skítugt leyndarmál“.

„Ég get ekki eignast fleiri börn“

„Maður fer í svona: „Af hverju ég? Þetta er ósanngjarnt. Af hverju er þetta að gerast? Ég get ekki eignast fleiri börn“,“ sagði Jónína en fyrir á hún eina dóttur á unglingsaldri.

Sagði hún jafnframt erfitt að geta ekki rætt vandamálið við neinn í kringum hana enda er enginn sem hún þekkir sem tengir við það að fara á breytingaskeiðið svona snemma. 

Hlustaðu á allt viðtalið Jónínu þar sem hún ræðir um upplifun sína á því að vera 32 ára á breytingaskeiðinu.

 

 

Þá gagnrýndi Jónína heilbrigðiskerfið og heilsugæsluna en hún segir að sú staðreynd að hún sé undantekning valdi því að hún hefur ekki fengið þjónustu sem konur á breytingaskeiði fá venjulega sem geti þó skipt sköpun fyrir heilsu hennar.

Hefur hún til dæmis ekki fengið að fara í beinþéttnimælingu eins og aðrar konur á breytingaskeiði, aðeins vegna þess hve ung hún er en hún tekur einnig hormóna til að minnka einkenni breytingaskeiðsins og þarf að vera á þeim að minnsta kosti næstu 20 árin. Þekkt er að hormónin geta aukið líkur á krabbameini og vill Jónína því fá aukið eftirlit. Það er þó ekki hlaupið að því – aftur vegna þess hve ung hún er. Að minnsta kosti ekki enn sem komið er en hún segist hvergi vera hætt að berjast að fá viðeigandi þjónustu. 

„Það eru alls konar svona hlutir – af því að ég fitta ekki inn í normið,“ sagði hún.

til baka