mán. 3. okt. 2022 10:36
Svante Paabo hefur hlotið fjölmörg verðlaun fyrir störf sín fyrir vísindasamfélagið.
Svante Paabo hlýtur nóbelsverðlaun í læknisfræði

Sænski erfðafræðingurinn Svante Paabo, sem raðgreindi erfðamengi neanderdalsmanna, og uppgötvaði fyrstur tilurðar denisovamanna, hlaut Nóbelsverðlaunin í læknisfræði í dag. 

„Með því að sýna fram á erfðafræðilegan mun á útdauðum tegundum manna hafa uppgötvanir hans lagt grunninn að því að hægt sé að rannsaka hvað gerir okkur einstaklega mannleg,“ segir í umsögn Nóbelsverðlaunanefndarinnar. 

Paabo komst að þeirri niðurstöðu að genaflutningur hafi átt sér stað frá umræddum útdauðum tegundum manna til Homo sapiens, þeirrar tegundar manna sem við erum. 

„Þetta forna flæði gena til nútímamanna hefur lífeðlisfræðilega þýðingu í dag, til dæmis hefur það áhrif á hvernig ónæmiskerfið okkar bregst við sýkingum,“ sagði í umsögn dómnefndar.

Paabo, sem er 67 ára, hlýtur ásamt nafnbótinni nóbelsverðlaunahafi, 10 milljón sænskar krónur í verðlaun. Hann tekur við verðlaununum frá Karli XVI. Gústafi Svíakonungi í formlegri verðlaunaafhendingu í Stokkhólmi 10. desember. 

 

til baka