fös. 27. jan. 2023 07:00
Afrekskonan Hrönn Sigurðardóttir berst nú við fjórða stigs krabbamein. Kristín Sif útnefndi hana manneskju vikunnar á K100.
Kristín Sif brotnaði niður í beinni vegna Hrannar

Hrönn Sigurðardóttir var útnefnd manneskja vikunnar í Ísland vaknar á K100 en Kristín Sif útnefndi hana í þættinum. Hrönn, afrekskona í ólympíufitness og eigandi verslunarinnar BeFit, berst nú við skætt fjórða stigs krabbamein en hún sækir meðferðir erlendis. Kristín Sif sagði frá þessu í þættinum og átti hún erfitt með að halda aftur af tárunum.

https://k100.mbl.is/frettir/2022/03/08/byrjudu_i_bilskurnum_og_eldhusinu_og_sameinudu_kraf/

„Þeir sem þekkja Hrönn vita að hún er framúrskarandi manneskja. Hún er ein af okkar allrabestu konum í fitness. Hún er ein af þremur sem hafa orðið atvinnumenn í þessu sporti á Íslandi,“ sagði Kristín Sif. „Þeir sem þekkja Hrönn vita að hún er algjör húmoristi.“ 

Einn fyrir Hrönn

Kristín vakti athygli á átakinu og myllumerkinu #einnfyrirhronn sem vinir Hrannar í fitness-heiminum byrjuðu með á dögunum eftir að ljóst var hve mikla baráttu Hrönn á fyrir höndum.

 

„Ef þú ert í ræktinni í dag og þetta er orðið erfitt þá tekuru einn fyrir Hrönn,“ sagði Kristín sem vekur einnig athygli á styrktarreikningi sem hefur verið stofnaður fyrir Hrönn og fjölskyldu hennar. 

Heldur í húmorinn þrátt fyrir erfiðleikana

„Þar sem hún er framúrskarandi fyrir, þrátt fyrir að vera að ganga í gegnum þessa erfiðleika sem hún er að ganga í gegnum núna – þetta er mjög alvarlegt – þá er hún einhvern veginn algjörlega peppandi. Heldur í húmorinn og er ennþá ógeðslega fyndin eins og hún er alltaf.

Hún er svo mikil baráttukona, hún er svo ógeðslega þrautseig og ógeðslega mikill töffari að hún er klárlega manneskja vikunnar hjá mér,“ sagði Kristín áður en hún gat ekki lengur haldið aftur af tárunum.

„Ég vissi að þetta myndi gerast, ég vissi að ég myndi fara að gráta,“ sagði Kristín þá í gegnum tárin.

„Ég komst næstum því í gegnum þetta,“ bætti hún við.

Hér má hlusta á Kristínu Sif segja frá manneskju vikunnar á K100. 

 

 

til baka