mán. 30. jan. 2023 08:00
Margir vilja ná góðum sólbekk við laugina.
Er dónalegt að taka frá sólbekk?

Margir kannast við pressuna að vakna snemma í fríinu sínu til þess að tryggja sér góðan sólbekk við laugina. Það er oft á tíðum mikil samkeppni um bekkina og skoðanir skiptar um hverjar reglurnar séu hvað sólbekkina varðar.

William Hanson, sérfræðingur í mannasiðum, talar um þrjátíu mínútna reglu þegar taka á frá sólbekk.

„Það er í lagi að taka frá sólbekk með handklæði sínu ef maður ætlar ekki að vera lengur í burtu en hálftíma. Þú þarft kannski að fá þér morgunmat eða hádegismat og verður varla lengur en í 30 mínútur. Þá er í lagi að taka frá. En ef þú ætlar að vera í klukkutíma eða lengur til að fara í nudd eða eitthvað slíkt þá þarf maður að gefa sólbekkinn upp á bátinn.“

Þrátt fyrir þetta segir hann að það sé mjög óvinsælt að einoka sólbekkinn allan daginn. 

Laura Akano, sem einnig er sérfræðingur í mannasiðum, er ósammála Hanson. Hún segir að fólk hafi engan rétt á að taka frá sólbekki.

„Fyrstur kemur, fyrstur fær. Svo einfalt er það ef hótelið er ekki með bókunarkerfi fyrir sólbekki. Eina rétta leiðin til þess að taka frá sólbekki er í gegnum formlegt bókunarkerfi. Fólk á ekki að vera að einoka sólbekki allan daginn. Það er ókurteisi, sérstaklega á sameiginlegum svæðum þar sem fólk þarf að deila.“

Akano segist ekki myndu verða hissa ef fólk hreinlega fjarlægði handklæði fólks sem notar ekki sólbekkina í lengri tíma. „Ef þú ferð í burtu ætti einhver annar að geta notað bekkinn og ekki vera hissa ef einhver tekur handklæðið og kastar því til hliðar.“

Bæði eru þó sammála um að staðan sé önnur ef fólk hefur leigt eða greitt fyrir sólbekkina.

til baka