mið. 31. maí 2023 17:00
Eitt minnsta hús Bretlands er komið á sölu, en það er ekki nema 21 fm að stærð.
Eitt minnsta hús Bretlands til sölu á 32,9 milljónir

Á Öngulseyju við strönd Wales í Bretlandi er að finna sögulega byggingu frá 17. öld. Húsið er talið vera eitt minnsta hús Bretlands og er aðeins 21 fm að stærð. Það fór nýlega á sölu og hefur vakið mikla athygli, en mörgum þykir verðið ansi hátt. 

Húsið var áður notað til að hýsa ferjumann sem flutti fólk og vörur yfir Menai-sundið áður en brýr voru reistar. Í dag hefur eignin fengið allsherjar yfirhalningu, en hún státar af einu svefnherbergi, einu baðherbergi og litlu alrými með eldhúsi og stofu.

„Þetta er kofi!“

Ásett verð er 190 þúsund sterlingspund, eða sem nemur rúmlega 32,9 milljónum króna á gengi dagsins í dag. Fram kemur á vef Daily Mail að húsið sé á sölu hjá Rightmove, en í fasteignaauglýsingunni kemur fram að eignin sé „einstakt sumarhús“ og að því hafi verið breytt í „nútímalegt og bjart rými með sögulegan sjarma.“

„Þetta er kofi! Glæsilegur kofi, en samt kofi. Verðið er bilun,“ skrifaði einn við auglýsinguna á meðan annar skrifaði: „Það er brjálað að þið haldið að með því að eyða 40 þúsund pundum í endurbætur þá hækki eignin um 130 þúsund pund.“

Að undanförnu hefur húsið verið til útleigu á bókunarvef Airbnb, en nóttin kostar 152 bandaríkjadali sem nemur rúmum 21 þúsund krónum. 

til baka