þri. 19. sept. 2023 11:52
Þak hússins fór af að stór­um hluta.
Sögulegt hús sem skemmdist í hvassviðrinu

Húsið sem skemmdist í hvassviðri á Siglufirði í gærkvöldi er söguleg skemma í síldarsögu landsins að sögn Örlygs Kristfinnssonar, fyrrverandi safnstjóra Síldarminjasafnsins á Siglufirði.

Þak hússins fór af að stór­um hluta með þeim af­leiðing­um að brak dreifðist um stórt svæði þar í kring. Rýma þurfti eitt nærliggjandi hús og varð tjón á öðrum mannvirkjum í kring.  

Vind­ur hef­ur verið mik­ill á Sigluf­irði í gær og í nótt, en lög­regla lýs­ir vind­strengj­un­um sem gríðarleg­um. Ekki er bú­ist við að lægi fyrr en líður á kvöldið.

mbl

 

Meðal fyrstu frystihúsa með vélfrystingu

Örlygur segir húsið reist í kring um 1928 og var það frystihús Ásgeirs Péturssonar. Var skemman sjálf frystihúsið, en við enda hennar stóð og stendur enn frystivélasalur. 

„Þetta er meðal fyrstu frystihúsa á landinu þar sem var notuð vélfrysting,“ segir Örlygur og kveður frystihúsið líklega fyrsta eða annað síns flokks hér á landi. 

Hann segir frystihúsið notað allt fram að lokum síldaráranna á Siglufirði eða í kring um árið 1965. Var síldin sem þar var fryst að mestu notuð sem beitusíld í þágu þorskveiða.  

Að sögn Örlygs var húsið notað sem geymslurými á síðustu árum, en húsið er í eigu Valgeirs Sigurðssonar, fyrrverandi veitingamanns.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2023/09/19/tvaer_aurskridur_fellu_a_veg/

til baka