þri. 21. nóv. 2023 12:20
Rafgeymir úr bifreið hleypti straumi á dínamitt-sprengiefni sem olli stórtjóni á íbúðarhúsi í Drøbak í október. Lögregla lítur til Svíþjóðar vegna aðferðarinnar og Kripos staðfestir að sænsk glæpagengi athafni sig nú í nær öllum sænskum lögregluumdæmum.
Ekki séð svona sprengju áður

Eftir tæplega mánaðarlanga rannsókn í kjölfar sprengjuárásar við heimili í Drøbak í Noregi, tæpa 40 kílómetra suður af Ósló, aðfaranótt 24. október, er lögreglan á svæðinu ekki miklu nær um hver eða hverjir hafi staðið að verknaðinum sem olli töluverðum skemmdum á útidyrahurð, dyrakörmum og fleiru í kring.

Frétt af mbl.is

Upphafleg kenning lögreglu var að þarna hefðu klíkur ungra brotamanna á svæðinu átt í hlut og verið að koma fram einhvers konar skilaboðum, hótun eða hefndum, en að sögn Christian Gjølberg Finnanger, ákæruvaldsfulltrúa lögreglunnar, berast böndin nú að reyndari og eldri brotamönnum.

„Við sjáum núna að hér eru stærri gerendur á ferð og beinum því sjónum okkar að stærri klíkum, hvort tveggja í Noregi og Svíþjóð, jafnvel fleiri löndum,“ segir ákæruvaldsfulltrúinn.

Gerð sprengjunnar bendi til Svíþjóðar

Hefur rannsóknin leitt í ljós að sprengjan var búin til úr rafgeymi úr bifreið og dínamiti sem einhver eða einhverjir komu fyrir við útidyr hússins í skjóli nætur. Einhvers konar búnaður stjórnaði svo tíma sprengingarinnar sem varð síðar um nóttina.

Í samtali við norska ríkisútvarpið NRK nefnir Finnanger sérstaklega þá óöld sem ríkt hefur í Svíþjóð undanfarið þar sem hálfgerður sprengjufaraldur gekk yfir í haust, íbúar húsa slösuðust og jafnvel létust auk þess sem stórtjón varð á fjölda húsa í Stokkhólmi og úthverfum borgarinnar. Segir Finnanger gerð sprengjunnar í Drøbak benda til Svíþjóðar þar sem lögregla viti til þess að sprengjum sömu gerðar hafi verið beitt þar.

Þess vegna sé það lögreglu einkar mikilvægt að komast að því hverjir hér stóðu að baki og hvað þeim gekk til. Óskar lögreglan eftir ábendingum og auk þess vitnum að sjálfri sprengingunni.

Rannsakað sem tilraun til manndráps

Í húsinu voru sex manns þegar sprengjan sprakk og sakaði engan þeirra en Finnanger segir það hreina tilviljun að tiltækið hafi ekki kostað mannslíf, svo hefði vel getað farið hefði einhver verið á ferð innandyra nálægt útidyrunum. Málið er rannsakað sem tilraun til manndráps.

Sænski blaðamaðurinn Diamant Salihu heimsótti NRK í síðustu viku og veitti þar viðtal í aðalfréttatíma sjónvarpsins. Salihu hefur skrifað tvær bækur um gengjastríðið í Svíþjóð sem mbl.is sagði frá í september.

Frétt af mbl.is

Sagði Salihu glæpagengin Svíþjóðarmegin líta á Noreg sem „gangster-paradise“ og vísaði þar í þekkt verk bandaríska tónlistarmannsins Artis Leon Ivey Jr. heitins sem betur var þekktur undir listamannsnafninu Coolio.

„Ef maður ætlar að selja fíkniefni í Svíþjóð í dag hættir maður lífi fjölskyldu sinnar. Í Noregi er samkeppnin ekki eins hörð. Þess vegna mun spurnin eftir fíkniefnum gera það að verkum að brotamennirnir líta til Noregs,“ sagði blaðamaðurinn.

Meira en hugsanlegt

Þetta styðja athuganir norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos sem kveðst hafa orðið vör við starfsemi sænskra gengja innan nær allra lögregluumdæma Noregs.

Kjetil Tunold, deildarstjóri í Kripos, segir það meira en hugsanlegt að sænsk glæpagengi feti sig yfir til Noregs og taki jafnvel upp samstarf við norska brotamenn.

„Ég tel það líklegt, einmitt vegna þess að við sjáum aukna starfsemi [sænskra gengja] og við vitum að norsku gengin starfa með þeim sænsku. Þetta er mjög líkleg þróun,“ sagði Tunold við NRK í síðustu viku.

NRK

NRKII (viðtalið Salihu)

NRKIII (allt lék á reiðiskjálfi)

til baka