sun. 3. mars 2024 11:31
Benedikt Arnar tónlistarmaður.
Vil ekki hugsa: Hvað ef?

„Lagið er persónulegt. Ég samdi það aðallega til konunnar minnar, en við eigum einn þriggja ára gutta saman, til að segja henni hvað hún er alltaf mögnuð. Mér finnst allt í lagi fyrir tónlistarmenn að vera svolítið persónulegir. Sjálfur skrifa ég mest um líf mitt, tilfinningar mínar og hvað ég hef upplifað. Lögin eru mín saga.“

Þetta segir tónlistarmaðurinn Benedikt Arnar sem hefur gefið út sitt fyrsta lag, Ótal tækifæri. Lagið er eftir Auðun Lúthersson en texti og útsetning eru eftir Benedikt sjálfan. 

Ertu búinn að fást lengi við tónlist?

„Já, ég byrjaði að rappa í félagsmiðstöðinni og skólanum 12 ára og nú er ég nýorðinn 29 ára. Ég hugsaði því með mér: Ef ekki núna, þá hvenær að láta reyna á þetta? Maður vill ekki hugsa síðar meir: Hvað ef? Ég hef lengi verið að semja lög heima fyrir mig sjálfan en nú ákvað ég að fá góða menn til að hjálpa mér að vinna lagið og gefa það út. Þetta eru Auðunn Lúthersson (Auður) og Gunnar Kristinn. Frábærir, báðir tveir.“

Stillir væntingum í hóf

Hvaða væntingar hefurðu í þessu sambandi?

„Ég stilli öllum væntingum í hóf. Draumurinn er samt að fá sem flesta til að hlusta og viðtökurnar á Spotify hafa verið betri en ég þorði að vona. Ég hef trú á þessu lagi og sjálfum mér. Gaman yrði líka að fá spilun í útvarpi en það hefur ekki tekist enn sem komið er. Það eru margir um hituna þar, enda mikið um góða tónlistarmenn á Íslandi.“ 

Ertu farinn að huga að plötu?

„Já, ég er byrjaður að vinna að fjögurra laga plötu með Auðuni og Gunnari sem vonandi kemur út á næstu mánuðum, jafnvel í sumar. Ég er einmitt að fara að taka upp fyrsta lagið.“ 

Er draumurinn að geta lifað af tónlist?

„Já, það yrði magnað. Annars er ég ekki farinn að hugsa svo langt. Það var mjög stórt skref fyrir mig að láta loksins vaða og ég er mjög ánægður með það. Eins og þeir segja í boltanum þá skora þeir sem þora.“

 

til baka