lau. 2. mars 2024 20:30
„Strákar þora margir ekki að sýna nánd, þeir haldast ekki nógu mikið í hendur,“ segir Ísleifur Eldur.
Sýnir inn í sitt innsta og viðkvæmasta

„Ég var aldrei að vinna að einhverri plötu, ég settist aldrei niður og hugsaði að ég ætlaði að semja lag eða texta fyrir plötu, heldur fæddist þetta í augnablikum yfir ákveðinn tíma. Svo áttaði ég mig á að ég væri kominn með efni í heila plötu, heilsteypt konsept. Ég þurfti bara að klára ýmislegt sem var ekki alveg fullmótað. Þessi plata er ég að stíga inn á sjónarsviðið alveg einn með mínar pælingar,“ segir Ísleifur Eldur Illugason tónlistarmaður, eða Ízleifur eins og listamannsnafn hans er skrifað. Hann sendi frá sér sína fyrstu plötu á dögunum sem heitir Þetta er Ízleifur.

„Ég hafði gefið út lög með öðrum og fengið aðra með mér í að búa til lög, en mig hafði lengi langað til að prófa að gera þetta alveg sjálfur. Þetta hefur verið í bígerð í þrjú ár, ég vildi ekki flýta mér heldur leyfa þessu að flæða og koma til mín náttúrulega. Núna var hárréttur tími til að láta vaða og ég nýtti mér allt sem ég gat af heilabúum annars fólks sem ég hef kynnst í gegnum þessi sex ár mín í tónlistinni, hvort sem það er í pródúseringu eða lagasmíðum. Í grunninn er þetta samt ég einn inni í stúdíói með dimm ljós að grafa í heilann minn.“

Tómleiki, fíkniefnaneysla og kvíði

Óneitanlega er mikil berskjöldun í textum Ísleifs, þar segir m.a. frá djöflum inni í höfðinu, kvíða, tómleika, tengslaleysi, löngun til að deyja, fíkniefnaneyslu, flótta og fleiri dimmum hliðum lífsins. Hann opnar óhræddur hjartað og sýnir inn í sitt innsta og viðkvæmasta.

„Mér fannst gott að kasta þessu svona út, þetta kom í flæðinu og það að létta á sínum hugsunum og tjá þær í gegnum tónlist er mjög frelsandi. Ég er ekki opnasta manneskja í heimi dagsdaglega, hvorki við félaga eða fjölskyldu, en mér finnst mjög gott að nota tónlistina sem miðil til að tjá mig og opna mig. Mér finnst ungir strákar ekki nógu duglegir að tjá sig um sínar tilfinningar og hvernig þeim líður, mér finnst fallegt að geta með þessari plötu kannski verið ungum strákum hvatning til að opna sig.

„Ekkert til að skammast sín fyrir

 

Ég veit að mörgum líður svipað og mér hefur liðið, það er ekkert til að skammast sín fyrir, það getur líka verið fallegt. Ég vona að fólk geti tekið eitthvað úr mínum sársauka og kvíða og nýtt sér það til að opna á eitthvað hjá því sjálfu. Ég hef fengið fullt af skilaboðum frá ungum strákum sem segjast tengja rosa mikið við hluti á plötunni, og að það hafi hjálpað þeim.

Það er nákvæmlega það sem ég vildi fá út úr þessu, sérstaklega vegna þess að strákar þora margir ekki að sýna nánd, þeir haldast ekki nógu mikið í hendur. Kannski er um að kenna ótta við úrelta karlmennskuímynd, en það er alveg hægt að vera kúl og kvíðinn á sama tíma,“ segir Ísleifur sem telur að vanlíðan ungs fólks í dag megi að hluta til rekja til samfélagsmiðla.

„Þar er verið að fegra alla hluti og allir að keppast við að líta sem best út, fyrir það eitt að fá sem flest læk. Eilífur samanburður gerir engum gott og veldur togstreitu á milli fólks.“

Reykjavík full af allskonar eitri

Titillag nýju plötu Ísleifs heitir Eitravík, og þar segist hann vera að vísa til Reykjavíkur.

„Borgin er þó nokkur dýragarður, full af allskonar eitri, líka eitri samkeppni og vanlíðunar. Á Íslandi erum við svo fá og mikið myrkur stóran hluta ársins, ég held að það spili inn í líðan fólks. Ég finn á sjálfum mér að það er þyngra yfir mér á þeim árstíma sem það er farið að dimma klukkan fjögur á daginn.

Ég held að covid-ástandið hafi haft mikil áhrif á krakka sem þá voru í framhaldsskóla og misstu af öllu félagslífi, þau fengu ekki að halda böll eða kynnast krökkum í skólanum, sem er svo mikill hluti af því að finna sig. Þau misstu af þessari nauðsynlegu félagsmótun, en framhaldsskólaárin voru mikilvæg ár fyrir mig að því leyti, þá fann ég hvers konar manneskja ég væri.

Djöflarnir eru hluti af mér, þeir koma og fara á milli árstíða, en ég fékk mjög gott uppeldi og mér var kennt að takast á við mína erfiðleika. Úr einhverju erfiðu kemur oft eitthvað gott. Mér finnst rosa gott að vera búinn að koma þessari plötu út og heyra góð viðbrögð, því ég er alltaf rosa efins um sjálfan mig. Ég var ekkert viss um hvernig fólk myndi taka í þetta. Ég er mjög þakklátur fyrir viðtökurnar og get ekki beðið eftir að halda áfram að búa til tónlist, hjálpa vonandi fleira fólki og halda áfram að vera trúr sjálfum mér.“

 

Daniil og GDRN með í tveimur lögum

Ísleifur mun útskrifast úr Listaháskólanum í vor úr námi í nýmiðlatónsmíðum en hann stúderaði svipuð fræði í Berlín í einn vetur. „Ég ólst upp við að hlusta á elektrónískt popp og hipphopp og ég var mikið í tölvunni sem krakki. Þetta lá einhvern veginn fyrir. Í menntaskóla prófaði ég að vera plötusnúður, sem þróaðist út í að ég fór að búa til mína eigin takta og síðan fór ég að vinna með fólki við að búa til lög.

Að lokum fór ég að gera allt sjálfur, þróaði það í nokkur ár og fann mig þar. Úr varð þessi plata. Þeir sem lifa og hrærast í þessari tegund tónlistar eru alltaf til í að styðja aðra sem eru að gera það sama. Það er pláss fyrir alla og hipphopp getur verið fáránlega margslungin tónlist,“ segir Ísleifur sem fékk Daniil og GDRN til liðs við sig í tveimur lögum.

„Það var auðsótt að fá Daniil, við höfum unnið saman í mörg ár og erum alltaf til í að gera hluti hvor fyrir annan. Mér kom smá á óvart að GDRN væri til í að gera þetta fyrir mig, en það var ógeðslega gaman að fá hana með og söngur hennar gerir mikið fyrir lagið þar sem hún syngur.“

Útgáfutónleikar 8. mars

Ísleifur stundar líkamsrækt á hverjum degi, sem honum finnst mjög mikilvægt fyrir hausinn á sér, og hann hefur mikinn áhuga á tísku, að eiga flott föt og púsla þeim saman. Hann er opinn fyrir að reyna sig á öðrum sviðum sköpunar.

„Ég hef verið í leikhúsinu síðan ég var barn, verandi sonur leikkonu, Guðrúnar Gísladóttur, og mig langar að prófa að dýfa mér út í leiklist einn daginn. Ég er til í að hafa allt opið.“

Ízleifur blæs til útgáfutónleika í Iðnó 8. mars. „Ég verð með nokkra sérstaka gesti, Sturla Atlas, Daniil, GDRN, Joy Christ og rapparinn Yung Nigo Drippin mæta og Big Joe félagi minn ætlar að hita upp fyrir mig. Auk þess verð ég með nokkra leynigesti. Þetta verður mikið stuð og ég mæli með að fólk kaupi miða í tíma, áður en selst upp.“

Miðar á tónleikana fást á tix.is

til baka