fim. 25. apr. 2024 07:17
Tónlistarferill Unu hefur verið mikill rússíbani og hefur hún upplifað allar tilfinningarnar.
Lifir vonandi lengi í hjörtum Íslendinga

Það má segja að tónlist hinnar ungu Unu Torfadóttur hafi komið sem ferskur andblær inn í íslenskt tónlistarlíf fyrir um tveimur árum síðan. Hún segir það súrrealískt að hafa fengið svona góðar viðtökur en hún sé nú farin að treysta eigin hæfileikum. Á morgun, 26. apríl, kemur fyrsta breiðplata hennar út sem hún segir vera metnaðarfullt verkefni. Söngleikurinn Stormur, lítur svo dagsins ljós í byrjun næsta árs en Una semur alla tónlistina fyrir verkið ásamt því að vera í aðalhlutverki.

„Á plötunni verða tólf lög, öll eftir mig og frá ólíkum tímabilum í mínu lífi. Ég held að elsta lagið á plötunni sé samið þegar ég var í tíunda bekk og nýjasta lagið samdi ég í fyrra. Svo það er farið yfir allan skalann,“ segir Una.  

„Hafsteinn Þráinsson kærasti minn hefur verið að vinna plötuna með mér, við erum búin að útsetja lögin saman. Hann er að pródúsera, stýrir upptökum og spilar á alls konar hljóðfæri. Hann spilar á gítar, píanó, bassa og ýmislegt. En með okkur er Sólrún Mjöll Kjartansdóttir á slagverk og trommur, Tumi Torfason bróðir minn á bassa og trompet. Svo erum við með básúnu- og strengjaleikara, fengum Magnús Jóhann til að koma og spila á píanó. Þetta er mjög metnaðarfullt verkefni hjá okkur Haffa. Við höfum lagt upp með það alveg frá upphafi að gera plötu sem lifir vonandi lengi í hjörtum Íslendinga, það er það sem við vonum.“ 

Hún segir plötuna persónulega og er unnin út frá dagbókinni hennar. „Ég held það sé auðveldara sem hlustandi að tengja við eitthvað sem er satt heldur en það sem er skáldað. Ég hef flutt þessi lög opinberlega í mörg ár þannig mér líður eins og þau hafi komið út fyrir löngu síðan. Þannig ég er svo spennt að þau komi loksins út og fái að lifa sínu eigin lífi eins og við höfum séð útgefnu lögin mín gera. Það er svo gefandi að fylgjast með hvernig fólk ættleiðir lögin manns, að þau fari frá mér í hendur annarra og allt í einu eigum við þau saman.“

Leyfa hverju lagi að skína 

Fyrr í mánuðinum gaf hún út lagið Yfir strikið og fannst henni það sýna hvað litróf væntanlegrar plötu er stórt, stærra en það sem hún hefur gert hingað til. „Ég vona að þessi plata muni koma fólki á óvart. Við erum svolítið að leyfa okkur að fara í alls konar búninga, hlusta frekar á þá fagurfræði sem lagatextinn biður um eða melódían í stað þess að reyna að búa til eitt heildarútlit fyrir alla plötuna. Leyfa frekar hverju lagi fyrir sig að skína. Sérstaklega í ljósi þess að þau koma frá ólíkum tímabilum í mínu lífi, með ólíku fólki og við ólíkar aðstæður. Okkur fannst það svolítið skemmtilegt að þetta yrði eins og úrklippubók.“ 

K100 - „Er mjög gjörn á að tala af mér“ (mbl.is)

Una horfir á það svo að tónlistarfólk tali ákveðna mállýsku af tónlistartungumálinu og það geti verið auðveldara að lýsa því hvernig einhver annar talar en maður sjálfur. „Maður tekur frekar eftir þema, endurteknu stefi eða stíl hjá öðrum tónlistarmönnum en maður sjálfur. Manni líður eins og maður sé að nýta allan skalann, sé að vera fjölbreyttur en er svo með sinn ramma. Ramminn er kannski eigið innsæi eða orðaforðinn sem maður notar. Ég veit ég er farin að sjá þema hjá mér og sérstaklega þegar ég enduruppgötva lög sem ég samdi í grunn- og menntaskóla. Það eru ákveðin hljómhvörf sem mér finnst skemmtileg, stundum hraðar laglínur og mikill texti. Þetta er eins og við tölum öll íslensku en við tölum hana mismunandi. Við erum öll með eigin frasa sem við grípum í oftar en aðrir og ég held það sé eins í listinni. Maður er með sinn eigin orðaforða.“​​​​​​​ 

 

Ferlið kaótískt

Una vinnur tónlistina náið með kærasta sínum, Hafsteini, og segir hún samstarfið rosalega gefandi, skemmtilegt en líka vera áskorun. „Af því þegar maður er svona náinn einhverjum þá er maður ekki með neinn filter, svo þegar ég verð óörugg í stúdíóinu þá á ég erfitt með að hrista það af mér sem ég ætti auðveldara með að gera ef ég væri að vinna með samstarfmanni. En af því að ég er með Haffa sem elskar mig og ég elska hann, við þekkjum hvort annað inn og út, þá verður vinnan einhvernveginn tilfinningalegri en ella. Sem er fallegt þó maður fari stundum að grenja fyrir framan míkrafóninn,“ segir hún og hlær. „Að geta farið í gegnum allar þessar tilfinningar, talað um þær og sigrast á óörygginu og efanum saman. Ég er líka þakklát að vera í sambandi með manneskju sem skilur þessa vinnu, hvernig þetta virkar og hvað þetta er allt kaótískt.“​​​​​​​

En hvernig er ferlið þegar þú semur nýja tónlist og hefur það breyst undanfarin ár? 

„Ég hef verið með mikla andlega vaxtarverki síðustu tvö árin síðan ég byrjaði að gefa út tónlist. Áður samdi ég alltaf ein, ég samdi alltaf með eitt hljóðfæri, gítar eða píanó og blað og penna. Ég settist niður, samdi lag og stóð ekki upp fyrr en það var tilbúið. Ef ég stóð upp og það var ekki tilbúið þá kláraði ég það aldrei. Þetta var svona mjög einfaldur og stirður rammi sem ég notaði til að skapa,“ útskýrir Una.

„En svo þegar manni langar að fara að spila með hljómsveit og gefa út tónlist með stærri útsetningum þá þurfti ég að læra að hleypa fólki að. Það er ógnvekjandi þegar maður er búinn að eiga listaverk með sjálfum sér í mörg ár og það hefur enginn snert það. Svo fór ég að leyfa og það var mjög lærdómsríkt. Svo núna þegar ég hef verið að vinna þessa plötu með Haffa þá erum við að stíga enn þá fleiri skref út úr gamla þægindarammanum mínum og mér er farið að líða miklu betur með það að leyfa öðru fólki að koma með hugmyndir inn í mín verkefni og stækka þennan heim. Af því að það sem ég vil, þegar öllu er á botninn hvolft, er að listin sem ég tek þátt í að búa til tilheyri öðru fólki líka. Að fólk tilheyri heiminum sem ég er að vinna í að búa til. Ég vil ekki mála sjálfa mig út í horn, ég vil vinna með öllu þessu góða og skemmtilega fólki sem ég hef unnið með að koma þessari plötu í heiminn.“ 

 

Treystir eigin hæfileikum

„​​​​​​​Það er eiginlega alveg súrrealískt að fá svona góðar móttökur. Það er svo skrýtið að það tekur mann smá tíma að treysta því held ég. Það er kannski besta leiðin til að útskýra tilfinninguna. Eftir að ég gaf út mitt fyrsta lag, þá fór það í útvarpið og ég fékk að fara í Gísla Martein að spila það. Allir sem hlustuðu sögðu eitthvað fallegt. Fyrst um sinn líður manni eins og það hljóti nú að fara að koma að því að fólk hætti að hlusta á þetta lag. Maður reynir að halda sér niðri á jörðinni og halda í veruleikann eins og hann var áður en ég fór að gefa út tónlist. En svo er rosalega skrýtið þegar flugið heldur bara áfram. Breytingar eru alltaf svo fyndnar fyrir hausinn okkar og það hefur verið erfitt fyrir heilann minn að venjast breyttum veruleika. En það er líka hollt fyrir mann að þora að treysta eigin hæfileikum, þora að treysta því að maður sé á réttri hillu.“​​​​​​​

Una segist hugsa um verkin sín sem gjafir og vandi hún sig við að gefa eitthvað fallegt. „Ef ég hugsa svona þá er ég minna upptekin af egói og hvort ég sé nógu góð. Ég er bara að gefa gjafir og sé svo hvað gerist. En ég veit ekki, þetta er búið að vera ótrúlega mikill rússíbani og ég hefði ekki getað ímyndað mér að þetta færi svona vel svona hratt. Svo ég er þakklát á hverjum degi.“ 

til baka