mán. 29. apr. 2024 09:35
Hera Björk Þórhallsdóttir á fyrstu æfingunni í Malmö.
Hera Björk í gullgalla á sviðinu í Malmö

Tónlistarkonan Hera Björk Þórhallsdóttir æfði í fyrsta skipti á sviðinu í Malmö í Svíðþjóð í gær. Hera Björk stígur á svið á fyrra undanúrslitakvöldinu, þriðjudaginn 7. maí. 

Hera Björk klæddist gylltum samfestingi á sviðinu í Malmö í gær. Samfestingurinn var svipaður og Sylvía Lovetank hannaði á Heru Björk fyrir Söngvakeppnina en samfestingurinn sem tónlistarkonan klæddist í Söngvakeppninni var rauður. Í staðinn fyrir efnisbút sem Hera Björk sveiflaði á sviðinu á Íslandi er kögur á nýju fötunum. Kögrið minnir á kúrekatískuna sem hefur verið í tísku að undanförnu. 

Það eru ákveðin líkindi með atriðinu í Söngvakeppninni og í Malmö. Það er enn upphækkun á sviðinu auk þess að Hera Björk er að vinna með hreyfingar sem minna á hreyfingarnar í Söngvakeppninni. 

Það hefur verið mikið að gera hjá íslenska hópnum að undanförnu en Hera Björk og félagar flugu út til Malmö á laugardaginn. 

 

til baka