sun. 11. ágú. 2024 18:40
Hans Kristian keyrir um landið og bakar pítsur á sérútbúnum ofni sem hann er með aftan á hjólinu.
Pítsur fyrir betri geðheilsu!

Í Drammen í Noregi býr sjúkraflutningamaðurinn og mótorhjólakappinn Hans Kristian Jørgensen. Hans stýrir þar oft aðgerðum á vettvangi slysa en í frítíma sínum þeysist hann um á Harley Davidson-fáki og bakar pítsur, en sérútbúinn pítsuofn er aftan á hjólinu.

Hans er nú í Íslandsferð á hjólinu og gleður gesti og gangandi með sjóðheitum og ilmandi pítsum.

Umhugað um geðheilsu

Hans heimsótti björgunarsveitarmenn í Grindavík í vikunni og kom beint þaðan í viðtal til blaðamanns á stóra græna mótorhjólinu sínu. Í Grindavík voru menn ánægðir með pítsustopp Norðmannsins en Hans er umhugað að gleðja fólk sem hjálpar öðrum.

Pitsurnar eru ávallt ókeypis, en Hans vill leggja sitt af mörkum til að bæta geðheilsu fólks. Hann segir að þegar hann mætir á hjólinu og býður upp á pítsu þá komi fólk út úr húsunum sínum, spjallar og á saman góðar stundir. Ævintýrið með pítsurnar hófst í fyrra.

 

„Þegar ég vil slaka á keyri ég á hjólinu mínu út í skóg og bý til mat úti í náttúrunni. Ég byrjaði að pósta myndum á Instagram og margir fóru að fylgjast með mér. Í fyrra keyrði ég svo frá Drammen til Nordkapp, stóran 6.500 kílómetra hring, og bakaði pítsur til að fá fólk til að fara út úr húsum sínum. Margir eru innilokaðir þannig að þetta er mín leið til að fá fólk út á meðal fólks. Verkefnið nefni ég Biker kost,“ segir Hans.

Upplýsingar um verkefnið má lesa um á bikerkost.no en einnig má fylgjast með Hans á Instagram-reikningnum biker.kost.

Allir elska pítsur

„Ég hef alltaf verið mótorhjólamaður og í vinnunni keyri ég mótorhjól líka,“ segir Hans, en pítsuofninn setti hann aftan á hjólið og gengur hann fyrir gasi. Þegar hann mætir á staðina þarf hann aðeins að finna fólk sem á gaskút og er þá lítið mál að fíra upp.

„Allir elska pítsur og fólk getur ráðið álegginu, þannig að hugmyndin er góð til að fá fólk til að koma saman. Ég læt vita á undan mér að ég sé á leiðinni og oft er ég beðinn um að koma á staði með pítsuofninn.“

 

 

Gaman að hitta fólk

Íslandsferð Hans er hans fyrsta en hann sigldi með Norrænu til Seyðisfjarðar og keyrði þaðan til Reykjavíkur. Hann ætlaði suðurleiðina en endaði að fara norðurleiðina vegna slæms veðurs.

„Hér hefur verið mikið rok og oft erfitt að halda hjólinu á veginum. Ég verð hér í tvær vikur og langar núna að keyra suðurströndina en mögulega fer ég líka norður í Mótorhjólasafnið. Ég hef nú bakað pitsur fyrir fólk tvisvar á leiðinni og á eftir að hitta margt fólk í viðbót hér á landi. Á morgun hitti ég Sniglana,“ segir Hans.

„Pitsudeigið fæ ég frosið frá norsku bakaríi og svo fæ ég fólk til að mæta með álegg eða fer sjálfur í búð og kaupi. Mér finnst svo gaman að hitta fólk og spjalla. Ég ætla að halda þessu áfram. Þetta er mitt framlag til betri geðheilsu.“

Ítarlegt viðtal er við Hans í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

til baka