Emil Andri Sigurgeirsson gaf á dögunum út sitt fyrsta lag, Blue Morning Sky. Hann er 23 ára, er á lausu og starfar núna sem stuðningsfulltrúi í Öskju, félagsmiðstöðinni í Klettaskóla en áður var hann í sálfræði við Háskóla Íslands. Lagið hans vakið athygli og er notað í tveimur þáttum í þáttaseríunni Dimmu á Sjónvarpi Símans Premium, en lagið má einnig finna á Spotify.
https://www.mbl.is/folk/frettir/2024/09/27/fyrsta_lag_emils_vekur_athygli/
Hver er bakgrunnur þinn í tónlist?
„Ég er í raun ekki með neinn formlegan tónlistarbakgrunn. Þegar ég var 12 ára kenndi pabbi mér að spila á gítar, en hann var sjálfur í hljómsveitinni In Bloom þegar hann var ungur. Svo hægt er að segja að innblásturinn komi fyrst frá pabba. Á þessum tíma leyfði pabbi mér að heyra ýmiss lög sem kveiktu enn meiri áhuga og byrjaði ég sjálfur að semja þarna 12 ára. Ekkert spes lög, en þú veist, maður byrjar einhvers staðar.“
Afdrifaríkt símtal
„Í gegnum tíðina hefur safnast listi af lögum sem ég hef samið. Það var svo fyrir sirka þremur árum að ég vildi láta drauminn um að gefa út verða að veruleika. Vinur pabba gerði vínil plötur í stúdíóinu Hljóðriti í Hafnarfirði. Það endaði með því að hann sendi Sigurði Guðmundssyni lög sem ég hafði verið að semja og tekið upp á voice memo. Sigurður hringir í mig mjög fljótlega og strax næsta dag erum við byrjaðir að taka upp.“
Eru fleiri lög í bígerð?
„Við erum búnir að taka upp þrjú lög. Ég stefni á EP plötu sem inniheldur 4-5 lög eftir mig. Ég var aðeins að bíða og sjá hvað myndi gerast með lagið Blue Morning Sky, sem ég gaf út fyrst. Það er búið að vera ansi skemmtilegt ferli og ganga vel svo að núna er ég spenntur yfir að klára það sem ég var byrjaður á.“
Hvað er á döfinni?
„Ég spilaði á mínum fyrstu tónleikum síðastliðinn föstudag og stefni að því að gera meira af því. Svo er auðvitað að gefa út fleiri lög. Lagið kemur auðvitað fram tveimur þáttum í þáttaseríunni Dimmu á Sjónvarpi Símans.“
Hvernig kom það til?
„Frændi minn sem er framleiðandi hjá True North var að hlusta á upptökur af laginu, sem var þá í vinnslu. Þegar leikstjórinn heyrir það þá vill hann fá lokaútgáfuna af laginu því hann sá strax fyrir sér að nota það í ákveðnum atriðum í þáttunum.“