lau. 30. nóv. 2024 15:06
Loka þurfti kjörstað í Kringlunni fyrr í dag til að stemma af atkvæði.
Íslendingum bregður við biðröðum á kjörstað

Loka þurfti kjördeild í Kringlunni í 15 til 20 mínútur rétt eftir hádegi í dag til að stemma af atkvæði. Á sama tíma mættu óvenju margir kjósendur á kjörstað í einu, sem varð til þess að nokkur röð myndaðist og þurftu einhverjir að bíða dágóða stund.

Leifur Valentín Gunnarsson, formaður kjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, segir ekki óvenjulegt að slíkt gerist og að vel hafi gengið að stemma af.

 

„Það gerist oft í kosningum að það þarf að loka til að stemma af og kanna bókhaldið. Við þurfum að loka í korter, tuttugu mínútur og þá kom auðvitað hrúga af kjósendum inn. Það þurfti eitthvað fólk að bíða sem er alltaf leiðinlegt, en mér skilst að fólki hafi verið boðið upp á kaffi og að tylla sér í stóla. Og að þetta hafi bara verið leyst nokkuð vel, þó það sé aldrei skemmtilegt að fólk þurfi að bíða lengi,“ segir Leifur í samtali við mbl.is

„Auðvitað er mikilvægt að skoða bókhaldið, finna hvað þarf að stemma af þannig það sé hægt að halda kjörfundi áfram,“ bætir hann við.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/11/30/kjosendur_mogulega_seinni_af_stad_eftir_gledskap/

 „Við erum mjög góðu vön“

Eva Helgadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík, segir Íslendinga vera svo góðu vanir að þeim bregði við þegar þeir þurfi að bíða á kjörstað. Betra sé hins vegar að loka í smá stund til að stemma af, sé það talið nauðsynlegt.

„Við hvetjum kjörstjórnirnar allar til þess að stoppa frekar, fara yfir, anda rólega. Þó að kjósendur þurfi að bíða í nokkrar mínútur, þá þykir það ekkert tiltökumál,“ segir Eva.

„Við sjáum víða í útlöndum langar biðraðir af kjósendum að kjósa en hér þekkjum við varla slíkt, enda bregður öllum þegar það þarf að bíða smá. Við erum mjög góðu vön.“

 

til baka