Breyting hefur orðið á viðskiptamódeli flutningafyrirtækisins Cargow Thorship sem einnig hefur skipt um nafn og heitir nú Torcargo. Fyrirtækið byggðist upp á nánu samstarfi í flutningum fyrir álverin, fyrst Rio Tinto í Straumsvík og svo Alcoa á Reyðarfirði og í Noregi. Álverin nýta stóran hluta skipanna en almennur gámaflutningur hefur bætt nýtingu þeirra og hagræði kerfisins. Nú hyggst Torcargo bæta við sig almennum flutningum til og frá Þorlákshöfn þar sem byggð verður upp aðstaða til framtíðar og ný skip tekin í gagnið.
„Við erum búin að vera í þessum gámasiglingum í 17 ár. Þó að það hafi kannski lítið farið fyrir okkur þá höfum við vaxið jafnt og þétt á þeim markaði og höfum verið í mjög góðu samstarfi við bæði Rio Tinto og Alcoa. Við höfum nýtt þeirra kerfi og flutt gáma og aðra flutninga samhliða. Nú erum við komin á þann stað að við erum búin að vaxa umfram getu og umfang þess kerfis á höfuðborgarsvæðinu. Við þurfum að taka næsta skref en stefnum samt áfram að nánu samstarfi við álverin. Við bætum við sjálfstæðri línu inn til Íslands óháðri álflutningunum og höfum fjárfest í skipum til að bæta inn á kerfið,“ útskýrir Stefán H. Stefánsson framkvæmdastjóri í samtali við ViðskiptaMoggann.
35 þúsund fermetrar
Stefán segir að nýtt viðskiptamódel þýði verulega aukningu í afkastagetu og félagið geti nú veitt stóru íslensku skipafyrirtækjunum, Eimskip og Samskipum, enn meiri samkeppni. Hann segir að eftir því sé kallað á markaðinum. „Við höfum samið við Þorlákshöfn og sveitarfélagið Ölfus um framtíðarstarfsemi í Þorlákshöfn. Þar er nú verið að byggja fyrsta flokks aðstöðu fyrir gámaflutninga okkar, allt að 35 þúsund fermetra gámavöll. Auk þess er nýr viðlegukantur í smíðum í höfninni sem verður tilbúinn í maí næstkomandi.“
Torcargo hefur einnig samið um kaup á Kuldabola ehf., sem rekur m.a. frystigeymslu í Þorlákshöfn. „Þetta er flott félag sem hefur verið starfrækt lengi í Þorlákshöfn. Við hyggjumst byggja það upp áfram eins og alla aðra aðstöðu tengda flutningum okkar,“ segir Stefán.
Aðspurður segir hann að rætt hafi verið við aðrar hafnir um aðstöðu áður en ákveðið var að semja við Ölfus. „Það var erfitt að ná ásættanlegri niðurstöðu varðandi Faxaflóahafnir og möguleikarnir í Hafnarfjarðarhöfn eru mjög takmarkaðir. Við þurfum að tryggja samkeppnishæfni okkar á markaðinum og fá töluvert pláss fyrir gámavöll og fyrirsjáanleika til langtímauppbyggingar.“
Stefán segir að viðræður við Faxaflóahafnir hafi staðið í töluverðan tíma. „Kerfið þar er að miklu leyti hannað í kringum Eimskip og Samskip. Faxaflóahafnir buðu okkur möguleika, en þeir voru allir til skamms tíma og háðir komu Sundabrautar og öðrum framkvæmdum. Langtímalausnir lágu ekki á borðinu. Í Þorlákshöfn er styttri sigling út í heim og í rauninni er umferðarþunginn til og frá bænum miklu minni inn á stóran hluta af helsta viðskiptasvæði okkar en hefði verið annars staðar. Möguleikar munu þrengjast í Sundahöfn á næstu árum. Hvort sem Sæbraut fer í stokk eða Sundabraut kemur þá eru líkur á auknu umferðaröngþveiti á því svæði.“
Almennt telur Stefán kostina við Þorlákshöfn vera enn meiri en við hina staðina og möguleikana til framtíðaruppbyggingar meiri. Auk þess sé mikil uppbygging á svæðinu í iðnaði, landeldi á laxi o.fl. „Það eru mikil vaxtartækifæri á Suðurlandi.“
Eiga fimm skip
Torcargo rekur siglingakerfi sjö skipa og á fimm þeirra. „Við tökum eitt skip inn til viðbótar í sumar í Þorlákshöfn, níu þúsund tonna skip sem getur flutt 5-600 gámaeiningar, og stefnum á að bæta síðan við öðru skipi þar. Þannig að við erum í rauninni að bæta tveimur skipum inn í kerfið okkar.“
Um eftirspurn á markaðinum og pláss fyrir meiri flutninga til og frá landinu segist Stefán finna fyrir miklum áhuga á aukinni samkeppni. „Það er mikilvægt á öllum mörkuðum að auka samkeppni. Við teljum okkur hafa mikið fram að færa og getum orðið öflugur samkeppnisaðili. Við finnum það hjá þeim sem við erum að ræða við, bæði hjá núverandi og væntanlegum nýjum viðskiptavinum, að það er mikill áhugi á því sem við erum að bjóða. Það er líka mikilvægt að menn skoði vel hvaða kjör þeir hafa og hvað er í boði á markaðinum – hvort samkeppnin geti bætt hag þeirra. Til að samkeppni þrífist verða menn að styðja við hana.“
Stefán bætir við að Torcargo sé mjög bjartsýnt á þennan þátt.
En af hverju var ákveðið að stíga þetta skref núna?
Stefán segir að vaxtarmöguleikar fyrir núverandi starfsemi í Straumsvík hafi verið búnir og fyrirtækið komið yfir þá afkastagetu sem það hafði þar. „Við sáum tækifæri til að stækka og vaxa. Við höfum vaxið með viðskiptavinum okkar og bætt nýjum inn jafnt og þétt, ásamt því að útvíkka viðskiptamódelið okkar með verulega aukinni flutningagetu. Við erum að auki að taka stór skref inn í flutninga með flugvélum, flugfrakt.“
Eins og Stefán útskýrir eru dýrari – og tímaháðari vörur fluttar með flugi, vörur sem þurfa að komast hraðar á markað, eins og ferskmeti og vörur keyptar í netverslunum.
Keyptu í Odin Cargo
„Við erum þar í mjög áhugaverðri stöðu,“ útskýrir Stefán. „Við keyptum okkur inn í félag sem nú heitir Odin Cargo. Það er með daglega flutninga með flugvélum til og frá Íslandi. Odin Cargo er dótturfélag okkar í dag. Flugvélin er í eigu og rekstri erlends félags, en við eigum allt flutningspláss vélarinnar ásamt alþjóðlegu hraðflutningafélagi. Hún fer daglega milli Keflavíkur, Kölnar í Þýskalandi og Billund í Danmörku. Þá gerðum við nýlega samning við flugfélagið Play þar sem við tökum við sölu á öllu flutningaplássi í farþegavélum þess. Þar bætast margir áfangastaðir við okkar net. Einnig erum við söluaðili fyrir bandaríska flugfélagið Delta sem flýgur til Íslands átta mánuði á ári til þriggja áfangastaða í Bandaríkjunum. Allt þetta þýðir að við erum með verulega flutningsgetu í flugi sem er áhugavert í bland við sjóflutningana.“
Stefán bendir á þá forvitnilegu staðreynd að í nágrannalöndunum hafa flutningsmiðlarar mun meira vægi en hér á landi þar sem allir stærstu viðskiptavinirnir eru í beinu sambandi við flutningsaðilana, eins og til dæmis útgerðarfélögin og stærri innflytjendur. „Það eru miklu meiri bein samskipti á Íslandi sem þýðir að okkar net, bæði á sjó og í flugi, ætti að vera eftirsóknarverður kostur.“
Aðspurður segir hann að býsna góð nýting sé á flugfraktinni. „En það eru tækifæri til að nýta hana betur og við sjáum fram á talsverða þörf á flutningum fyrir t.d. lax bæði á sjó og í flugi. Þar eru klárlega tækifæri til vaxtar.“