Susanne Arfelt Rajamand, forstjóra grænlensku ríkisútgerðarinnar Royal Greenland, hefur verið sagt upp eftir tvö ár í starfi. Í fréttatilkynningu síðastliðinn mánudag greindi stjórn félagsins frá því að samstarfinu með forstjóranum væri þá þegar lokið, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Rajamand tók til starfa í febrúar 2023 og virtist taka við góðu búi enda hafði orðið mikill viðsnúningur í rekstrinum á síðustu starfsárum Mikael Thinghuus, sem hafði gegnt forstjórastöðunni frá 2009. Skilaði hann til að mynda Royal Greenland mesta hagnaði í 250 ára sögu félagsins árið 2021 þegar hann náði 326 milljónum danskra króna.
https://www.mbl.is/200milur/frettir/2022/11/23/tekur_vid_stjorn_royal_greenland_i_februar/
Rekstur Royal Greenland hefur hins vegar verið þungur undanfarin ár og skilaði félagið 255 milljóna danskra króna tapi árið 2023. Jafnframt var greint frá því síðastliðið haust að tap væri í rekstri félagsins fyrri helming 2024, alls 59 milljónir danskra króna. Þó var þetta töluvert minna tap en á fyrri helmingi 2024 þegar það var 113 milljónir danskra króna.
Tilkynnti aðgerðir
Vegna stöðunnar tilkynnti Rajmand í tengslum við hálfsársuppgjörið að gripið yrði til umfangsmikilla ráðstafana til að ná tökum á taprekstrinum. Var stefnt að fækkun starfsmanna, sameiningu sölustarfseminnar, sparnaðaraðgerðum í innkaupum og hagræðingu í framleiðslu og flutningum.
https://www.mbl.is/200milur/frettir/2024/11/01/royal_greenland_tekst_a_vid_rekstrartap/
Ársuppgjör Royal Greenland fyrir 2024 liggur ekki fyrir og er því óljóst hvort aðgerðirnar hafi skilað árangri. Ef draga má ályktun af ákvörðun stjórnarinnar hafa aðgerðirnar ekki borið nægilegan árangur eða þær ekki verið stjórn félagsins til geðs. Grænlensk stjórnmál hafa nokkur áhrif á rekstur félagsins því það er 100% í eigu grænlensku heimastjórnarinnar.
„Undanfarin tvö ár hafa verið krefjandi fyrir Royal Greenland á mörgum sviðum og eins og er hefur einróma stjórn ákveðið að þörf sé á forstjóra með aðra hæfni og þess vegna erum við að hefja ráðningarferli,“ segir stjórnarformaðurinn Maliina Abelsen í samtali við Sermitsiaq.