Þjónusta hjá Faxaflóahöfnum er nú mun greiðari en áður og í boði allan sólarhringinn eftir að komið hefur verið upp þremur sjálfsagreiðslustöðvum fyrir rafmagn og heitt og kallt vatn á Austurbakka. Hægt er að greiða fyrir þjónustuna í snjallforriti í síma.
Fram kemur í tilkynningu á vef Faxaflóahafna að hingað til hafi aðgangur að rafmagni og vatni krafist þess að hafnarstarfsmenn séu kallaðir til að virkja þjónustu á staðnum og skrá notkun handvirkt.
„Með Marineium og Waterstation lausninni frá danska fyrirtækinu Vikingegaarden A/S – Smart IoT solutions. í gegnum Emiko stýrikerfið, getum við nú veitt viðskiptavinum Faxaflóahafna aðgang að skilvirku sjálfsafgreiðslukerfi. Þessar nýju stöðvar veita 24/7 aðgang að rafmagni, köldu vatni og heitu vatni – alla daga ársins,“ segir í tilkynningunni.
Stýrt í símanum
Þá sé hægt að panta og stjórna þjónustu í gegnum snjallforrit í símanum, með netgreiðslum, rauntíma fjarvöktun á notkun, skýrslugerð og viðvörunum. „Þessi þróun eykur ekki aðeins þægindi viðskiptavina heldur bætir einnig skilvirkni, og mætir kröfum markaðarins um skilvirka miðlun á umhverfisspori vörunnar alla leið til neytenda.“
Sem fyrr segir hefur þremur stöðvum verið komið upp á Austurbakka, en Faxaflóahafnir segjast stefna að því að þessi nýja lausn leysi alfarið fyrra fyrirkomulag af hólmi. „Til að byrja með verður horft til afgreiðslu á rafmagni til smábáta sem í dag er leyst með sérstökum mælasnúrum með álestri,“ segir í tilkynningunni.