Langamma í Colorado lítur á langömmuson sinn sem sanna hetju eftir að hann, þriggja ára gamall, þorði út í myrkrið til að ná í símann hennar þegar hún datt í bakgarðinum.
„Ég kalla hann hetjuna mína, en hann segir: „Nei, G.G. [stytting fyrir great-grandmother], ég er Bridger.“ Hann áttar sig ekki á því, en fyrir mér er hann svo sannarlega hetja,“ sagði Sharon Lewis í viðtali við Good Morning America sem fjallaði um málið.
Lewis rifjar upp að hún og Bridger hafi verið á leið inn í húsið eitt kvöld í lok febrúar þegar hún hrasaði, féll og skall með höfuðið í þrep úr steinsteypu.
„Fyrsta sem Bridger sagði þegar ég lenti í jörðina var: „Er í lagi með þig, langamma?„ Ég svaraði: „Já, ég er í lagi.“ Þá sagði hann: „Það er mjög mikið [blóð]“ … Við reyndum að kalla á nágranna, en enginn svaraði,“ sagði Lewis.
Þegar Lewis áttaði sig á að hún þyrfti að hringja í neyðarlínuna varð hún óttaslegin því að síminn hennar var í bílnum í innkeyrslunni, og úti var farið að dimma.
„Ég sagði við Bridger: „Þú verður að vera duglegur strákur og fara út í bílinn að sækja símann fyrir langömmu.“ Hann horfði á mig og sagði: „Það er svo dimmt, langamma“
„Ég sagði: „Það verður allt í lagi. Jesús mun hjálpa þér. Ekki vera hræddur,’“ rifjaði hún upp.
Öryggismyndavélar Lewis sýndu litla strákinn á leið út í myrkrið, á meðan hann hvíslar þrjú orð við sjálfan sig: „Ekki vera hræddur. Ekki vera hræddur.“
„Ég var svo hræddur“
„Ég fór út – og ég var svo hræddur!“ viðurkenndi Bridger í samtali við Good Morning America. Hann sagðist þó hafa viljað vera hugrakkur eins og uppáhaldshvolparnir hans í Hvolpasveitinni.
Þegar Bridger hafði náð í símann og komið honum aftur til langömmu sinnar, gat hún loks hringt í dóttur sína sem hafði samband við nágranna og kallaði á sjúkralið.
Sjúkraflutningamenn komu skjótt á vettvang og fluttu Lewis á sjúkrahús þar sem hún fékk nauðsynlega aðhlynningu.
Lewis segist sannfærð um að ef Bridger hefði ekki verið með henni, hefði atburðarásin getað endað illa.
„Ég gat hvorki staðið upp né skriðið. Ég var algjörlega hjálparlaus,“ sagði gamla konan, sem er 77 ára.
„Ef hann hefði ekki verið þarna, hefði ég líklega legið þarna mjög lengi, algerlega hjálparlaus.“
Hér má sjá umfjöllum GMA og myndband af hetjudáð drengsins.