Eva Ruza flytur pistla um stjörnurnar á hverjum degi á sinn einstaka hátt á K100.
Sean Lowe, sem allir aðdáendur Bachelor-heimsins þekkja, lenti í hræðilegum aðstæðum um liðna helgi.
Hundurinn hans, Moose, réðst á hann og beit hann svo illa að hann lenti á bráðamóttöku með margar skaddaðar æðar.
Sean var að grilla með vinum sínum heima og vindurinn blés þannig að reykurinn úr grillinu fór beint í reykskynjara á heimilinu. Við það er eins og hundurinn Moose triggerist og hann réðst í kjölfarið svo illa á Sean að hann missti gríðarlegt magn af blóði. Hann var í raun að berjast fyrir lífi sínu við hundinn.
Eftir marga sauma og spítalaheimsókn fór Sean heim að jafna sig, og segist hafa verið steinhissa á þessari atburðarás því Moose hafði ávallt sýnt af sér góða hegðun og verið blíður.
12 tímum eftir þessa árás var Sean að koma börnunum sínum í bíl tengdaforeldra sinni sem ætluðu að vera með börnin í nokkra daga á meðan hann jafnaði sig. Þá sér Sean út undan sér að Moose er tekinn á rás í átt að honum og stekkur á hann. Sean þurfti því aftur að berjast fyrir lífi sínu, að eigin sögn, við hundinn sem hann elskaði svo heitt.
Hann endaði aftur á spítalanum þó með minni áverka en daginn áður.
Moose er sjö ára gamall og af Boxer-tegundinni, en fjölskyldan tók hann að sér í janúar síðastliðnum.
Hann er svokallaður „rescue dog“, en þau tóku hann að sér úr hundathvarfi án þess að vita neitt um fortíð hans.
Honum hefur nú verið komið fyrir í athvarfi sem sérhæfir sig í árásargjörnum hundum þar sem allt verður gert til að breyta hegðun hans, án þess að til aflífunar komi.