Hrefna Hallgrímsdóttir, betur þekkt sem Skrítla úr Skoppu og Skrítlu, deilir mikilvægri áminningu til foreldra í tilefni Alþjóðlega hamingjudagsins, sem er í dag. Hún leggur áherslu á að eitt meginatriði í vellíðan barna sé að hjálpa þeim að tileinka sér jákvætt hugarfar.
Börn læra ekki aðeins af því sem sagt er við þau – heldur af því hvernig þau sjá foreldra sína bregðast við í daglegu lífi. Hrefna, sem er nemandi í jákvæðri sálfræði við Endurmenntun HÍ, segir að litlu hlutirnir í daglegu lífi geti haft mikil áhrif á sjálfstraust, þrautseigju og lífsánægju barna.
„Við vinkonur höfum tileinkað okkur hamingju og velferð barnanna ykkar síðustu 21 ár,“ skrifar hún og bendir á að þegar börn læra að sjá áskoranir sem tækifæri til að læra og vaxa, styrkist hæfni þeirra til að takast á við mótlæti og byggja upp lífsleikni sem nýtist þeim alla ævi.
Hún leggur áherslu á að það þurfi ekki stórar breytingar til að efla jákvætt hugarfar barna. Litlir, daglegir hlutir geta haft mikil áhrif, eins og:
- Hamingjustundir – að gefa barninu tækifæri til að velja eitthvað sem gleður það.
- Hlátur og bros – að skapa skemmtileg augnablik sem styrkja tengsl.
- Jákvætt sjálfstal – að kenna börnum að hvetja sig áfram í stað þess að efast um eigin getu.
Einnig nefnir hún leikinn Tilfinningaljósið, sem hjálpar börnum að læra að tjá sig um líðan sína. Þar lýsa þau ljósinu sínu með litum – ef barn segir að ljósið sitt sé rautt, upplifir það reiði, sorg eða hræðslu. Sé það hins vegar grænt, líður barninu vel og það er tilbúið til leiks og samskipta.
„Bros, knús og hlý orð eru stærri en við höldum“
Að lokum minnir hún á að það sem skiptir mestu máli er að vera til staðar fyrir börnin og vera góð fyrirmynd. Foreldrar þurfi ekki að vera fullkomnir – heldur ástríkir.
„Bros, knús og hlý orð eru stærri en við höldum,“ skrifar hún og hvetur foreldra til að sýna þolinmæði, leyfa sér að gera mistök og muna að hlúa að eigin vellíðan.
Sjá má færsluna í heild sinni hér: