fös. 21. mars 2025 06:30
„Ég lenti á bakinu og lá flöt!“ Eva Ruza sagði frá óhappinu sem átti sér stað fyrir framan fjölda unglinga í vikunni.
Eva Ruza datt illa fyrir framan fullt af fólki – „Hræðilegasta fall sem þú hefðir séð“

„Ég er sko með áverka á báðum hnjám,“ sagði Eva Ruza sem lýsti óheppilegu atviki fyrir utan Kvennaskólann í gær fyrir Bolla Má í morgunþættinum Ísland vaknar í dag.

Eva var með dóttur sinni að skoða framhaldsskóla þegar óhappið átti sér stað – fyrir framan heilan hóp af unglingum.

„Ég finn að ég rek tánna í helluna í götunni. Ég byrja bara að reyna að bjarga mér. Ég lenti á bakinu og lá flöt,“ sagði Eva í þættinum. Á sama tíma og hún reyndi að halda jafnvægi þurfti hún einnig að passa upp á snjallsímann, eitt af hennar helstu vinnutækjum, svo hann slyppi óskemmdur.

„Allir unglingar landsins mættir“

„Þetta var hræðilegasta fall sem þú hefðir séð,“ sagði hún og lýsti svipnum á konu í bíl rétt hjá, sem virtist skelfingu lostin.

Dóttir Evu átti í mestu vandræðum með að halda andlitinu yfir klaufaskap móður sinnar, en þær mæðgur hlógu að lokum dátt að atvikinu, sem Eva telur að hafi verið sambandsstyrkjandi fyrir þær.

„Hendurnar á mér skulfu sko eftir þetta. Svo lít ég til hægri og þá blasir Kvennaskólinn við fyrir framan mig. Klukkan var fimm þannig að það voru allir unglingar landsins mættir þarna,“ sagði Eva, en hún fékk að lokum leyfi frá dóttur sinni til að halda áfram skoðunarferðinni, með skilyrðinu að hún myndi „standa í lappirnar“.

„Af hverju verður maður svona kjánalegur þegar maður dettur? Þetta er svona högg á stoltið,“ bætti hún við. Hún deildi myndum af áverkunum á samfélagsmiðlum en hrósaði happi yfir að enn hefði ekki fundist myndband af atvikinu.

Hér má hlusta á alla söguna: 

 

 

til baka