mið. 16. apr. 2025 06:00
Frá Kastljósi í kvöld.
Segir alla þurfa að taka ábyrgð á fjölbreytileikanum

Einkunnir eiga ekki að vera „sorteringarmaskína“ inn í framhaldsskólana, segir prófessor við Háskóla Íslands. Þingmaður Miðflokksins er þessu ósammála eins og sjá mátti á heitum umræðum sem sköpuðust í Kastljósi ríkisútvarpsins í gærkvöldi.

Guðrún Ragnarsdóttir, sem áður var framhaldsskólakennari og er nú prófessor í stjórnun menntastofnana við deild menningar og margbreytileika í Háskóla Íslands, kvaðst fagna fyrirhugaðri breytingu og sagði núverandi kerfi úrelt.

Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins sem hefur látið sig menntamál varða, sagði á sama tíma að breytingin væri aðför að frjálsu skólavali á Íslandi.

Ekki sé ákall eftir breytingunum á meðal nemenda eða almennings og að með frumvarpinu sé verið að nota framhaldsskólana sem „hugmyndafræðilegan mótor“.

Óréttlátt kerfi að mati ráðherra

Lestu meira

Greint var frá fyrirhuguðum breytingum á mbl.is á mánudag, þar sem rætt var við Guðmund Inga Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra.

Hann hyggst breyta lögum til að gefa framhaldsskólum skýra heimild til að horfa til annarra þátta en einkunna við val á nemendum inn í framhaldsskóla. 

Í viðtalinu, sem vakið hefur mikla athygli, sagði ráðherrann núverandi kerfi ekki réttlátt.

Drög að frumvarpinu hafa verið birt á samráðsgátt stjórnvalda.

Er þar lagt til að við ákvörðun um innritun nemenda verði „heimilt að líta til sjónarmiða sem tengjast nemandanum, þ.m.t. námsárangurs úr grunnskóla og annarra upplýsinga sem nemandinn lætur skólanum í té, og sjónarmiða sem tengjast skólasamfélagi viðkomandi skóla, þ.m.t. sem miða að því að auka fjölbreytni í nemendahópnum“.

Segir ósanngjarnt að meta nemendur út frá einkunnum

Sagði kerfið gamaldags og úrelt

„Það er rosalega mikilvægt að skólar endurspegli fjölbreytileika samfélagsins og allar rannsóknir sýna það,“ fullyrti Guðrún í Kastljósi.

„Við viljum ekki búa til þessa hópa eða grúbbur, við viljum gefa öllum tækifæri og þetta frjálsa skólaval byggir fyrst og fremst á því að leyfa þeim sem hafa einsleita þekkingu að raða sér inn í skólana og komast þannig áfram í kerfinu,“ bætti hún við.

Vísaði hún til þess að við innritun nemenda í framhaldsskóla sé litið til námsárangurs í þremur greinum; íslensku, ensku og stærðfræði. 

Sagðist hún telja núverandi kerfi gamaldags og úrelt og að með því séu það framhaldsskólarnir sem velji nemendurna frekar en öfugt.

Óháð stétt og stöðu

Þessu sagðist Snorri ósammála og efaðist um að breytingarnar næðu að tryggja það markmið sem stjórnvöld segjast vonast eftir: 

„Ég tel að í núverandi kerfi séu verulega mörg dæmi um það að grunnskólanemendur, óháð stétt og stöðu, komist að þeirri niðurstöðu í skólakerfinu í tíunda bekk að nú sé ögurstund, sama hversu grimmilega það hljómar, og óháð þeirri stétt og stöðu þá getur þú staðið þig núna og þá getur þú komist inn í þann skóla sem þú vilt komast inn í,“ sagði Snorri.

„Að raska þessu og að færa þetta frá því að miða við árangur nemenda og yfir í þessa hina þætti er mér stórlega til efs að muni tryggja það félagslega réttlæti sem markmiðið er.“

Framhaldsskólar ættu þegar fullt í fangi með að búa nemendur undir háskólanám.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/04/15/enginn_skilur_hvad_eigi_ad_taka_vid/

Breytingarnar hafi afleiðingar

Guðrún sagði núverandi kerfi vera útilokandi fyrir nemendur sem séu af erlendu bergi brotnir. Þeir skili sér síður inn í framhaldsskólana og sagði hún mikilvægt að koma til móts við þessa nemendur.

Þáttastjórnandinn Urður Örlygsdóttir benti þá á að á Íslandi kæmust allir inn í framhaldsskóla.

„Já, en þú hefur ekki val um það,“ svaraði Guðrún.

„Það þurfa bara allir að taka ábyrgð á fjölbreytileikanum. Það er mín sannfæring eftir að hafa verið að skoða gögnin sem við erum með og liggja til grundvallar.“

Lærir svo margt annað líka

Tók hún fram að MR væri til dæmis þegar kominn af stað með starfsbraut, en hún er ætluð nemendum sem stundað hafa nám í sérdeildum grunnskóla eða notið mikillar sérkennslu á grunnskólastigi.

„Og Kvennaskólinn er kominn með braut fyrir nemendur af erlendum uppruna. Við þurfum bara að gera miklu, miklu betur.“

Spurð hvort þetta hefði ekki áhrif á þá nemendur sem vilja standa sig vel og vilja komast inn í framhaldsskóla, sagði Guðrún:

„Haldið þið virkilega að þið standið ykkur illa ef þið eruð við hliðina á einhverjum sem er ekki í efri stéttum. Því þú lærir svo margt annað líka. Þú lærir samskipti, þú lærir að bera virðingu fyrir fólki. Og þessa mennsku. Samfélagið er fjölbreytt og ef við ölumst öll upp við það að vera í einsleitninni, þá erum við ekki að þjóna þessu samfélagi sem við búum í.“

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/04/11/enn_dregid_ur_vaegi_namsarangurs/

„Ég hafna því algjörlega“

Snorri sagði markmið framhaldsskóla, eins og annarra skóla, að veita eins góða menntun og kostur er á:

„Er ekki augljóst, ef skólarnir hverfa frá því að taka inn nemendur á grundvelli námsárangurs – það er vel að merkja ekki tilviljun að það er gert, það er gert vegna þess að þá geta þau reiknað sem mestar líkur á að árangurinn sem náist síðan inni í skólanum sé sem bestur – en það er ástæða fyrir því...“ sagði Snorri áður en Guðrún greip fram í:

„Sko, einkunnir eiga ekki að vera sorteringarmaskína inn í framhaldsskólana. Ég hafna því algjörlega að það sé ekki hægt að vera með einhverja sérhæfingu og sérstöðu skólanna, ef þú tekur inn fjölbreyttan nemendahóp,“ sagði hún.

Snorri hélt þá áfram:

„Það er ástæða fyrir því að fólk hefur miðað við námsárangur – það er vegna þess að það er að reyna ná sem bestum árangri inni í skólanum þegar þangað er komið.

Það er ekki að ástæðulausu og við getum ekki fleygt því út án þess að það hafi afleiðingar og þá geta menn gengist við því, að árangurinn verði þá verri.“

Sjá Kastljós.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/04/15/fyrir_hvern_er_thad_gott/

til baka