„Glæpasagan Diplómati deyr eftir Elizu Reid er slungin spennusaga í anda Agöthu Christie. Hún fjallar ekki aðeins um glæpi og lausn þeirra heldur fangar Eliza vel umhverfið í heimi frægðar og frama, þar sem öllu er fórnað til þess að ná settu marki, auk þess sem hún á írónískan hátt tengir vel við hégómagirnd og heimóttarskap í fámenninu,“ skrifar Steinþór Guðbjartsson um bók Elizu sem birtist í Morgunblaðinu í dag, föstudag, undir fyrirsögninni Fórnir og frami og gefur bókinni 3.5 stjörnur.
Steinþór heldur áfram: „Enn fremur notar hún tækifærið og vekur athygli á Vestmannaeyjum sem og ýmsum siðum og venjum Íslendinga. Bókin er enda einnig samtímis gefin út á ensku.“
„Í grunninn hverfist sagan um hugsanlegan viðskiptasamning sjávarútvegsfyrirtækisins Bláhafsins í Vestmannaeyjum við kanadísk stjórnvöld. En fleira hangir á spýtunni. Þar ber hæst flutning flóttafólks í gegnum Ísland til Kanada, þar sem Kavita, hægri hönd kanadíska sendiherrans á Íslandi, er í aðalhlutverki. Stuðningur kanadíska sendiráðsins og Bláhafsins við kanadískan listamann er einnig liður í framgangi málsins og vinskapur Jane, kanadísku sendiherrafrúarinnar, og frægs rithöfundar af íslenskum ættum frá Gimli í Manitoba í Kanada skemmir ekki fyrir.
Opnun myndlistarsýningar er yfirvarp opinberrar heimsóknar Kanadamannanna til Vestmannaeyja með sendaherrahjónin í broddi fylkingar. Allt virðist slétt og fellt á yfirborðinu, en það blæs oft í Eyjum. Í fámennum hópi sendinefndar og móttökuliðs er ekki aðeins núningur heldur virðast náin sambönd standa á brauðfótum, þótt látið sé í veðri vaka að allt sé í himnalagi. Góð lýsing á lífi þessa fólks og því sjálfu.
Í sameiginlegri kvöldverðarveislu deyr Kavita skyndilega og fjandinn verður laus. Bæjarstjórinn er enn í áfalli eftir sviplegt andlát eiginmanns síns og ekki stendur á samsæriskenningunum. Síðar verður enn eitt dauðsfallið og úr því taka línur að skýrast.
Allir í hópnum að Jane undanskilinni eru grunaðir um morð. Hún gengur í málið, setur sig í spor rannsóknarlögreglu og leitar að nálinni í heystakknum. Hvernig til tekst kemur ekki í ljós fyrr en í lokin, en hægt og sígandi fær lesandinn vitneskju um hvern einstakling og hvaða mann hann hefur að geyma. Enginn er vammlaus og allir drattast með eitthvað skítugt í farteskinu. Ekki er þar með sagt að glæpamaður og hvað þá morðingi sé í hverju horni, en lítill neisti getur orðið að stóru báli, eins og þar stendur.
Inni á milli kemur grunur um spillingu til sögunnar. Gagnlegar upplýsingar fyrir ferðamenn og erlenda starfsmenn eru einnig á borð bornar. Sundlaugar þurrka út stéttaskiptingu, ekki er gott að treysta á flug til Eyja heldur er ferjan helsta samgönguæðin. Heimamenn fara úr skónum áður en þeir ganga inn í híbýli fólks og hverasvæði eru varhugaverð. Tiltekið kanadískt hvítvín er eins og hvítir hrafnar á Íslandi og eins getur verið erfitt að eignast vini hérlendis. Menningarsnobbi er best lýst þegar vísindamaðurinn og myndlistarmaðurinn telur að matreiðslumaðurinn sé ekki fyrir bókina og sér vitandi hafi hann helst blaðað í endurminningum Anthonys Bourdains. Sá frægi sjónvarpskokkur á að hafa sagt, ef rétt er munað, að það versta sem hann hafi smakkað væri íslenskur hákarl.
Þegar öllu er á botninn hvolft er fína fólkið í merkjafötunum ekkert merkilegra en venjulegur starfsmaður á gólfi. Matreiðslumaður sögunnar er sérfræðingur á sínu sviði og lifir og hrærist í matreiðslunni. Maður sem klæðist nýrri og áður ónotaðri skyrtu og lætur brot hennar ekki trufla sig. Því síður missir hann svefn þótt hann gleymi að taka verðmiða af blómvendi áður en hann færir hann konu að gjöf. Eftirminnilegasta persóna sögunnar.
Sagan er vel uppbyggð. Sögustaðurinn er afmarkaður, fáar persónur auðvelda yfirsýn og helsta refskákin er úthugsuð. Fólk innilokað á lítilli eyju vegna veðurs er góður efniviður í glæpasögu og Eliza hefur unnið vel úr hráefninu, þótt stundum hefði mátt gera betur. Það breytir samt engu hvort nóg sé af hvannarót eða ekki.“