fös. 23. maí 2025 18:40
Billy Joel spilaði á Grammýverðlaununum í fyrra.
Billy Joel greindur með heilasjúkdóm

Bandaríski stórsöngvarinn Billy Joel hefur verið greindur með heilasjúkdóm. Hefur hann því aflýst fjölda væntanlegra tónleika.

Sjúkdómurinn nefnist NPH (e. Normal pressure hydrocephalus), og felst í aukningu á heila- og mænuvökva í höfði. Heilabilun er algengur fylgikvilli sjúkdómsins.

„Þetta ástand hefur versnað vegna nýlegra tónleika, sem hefur leitt til vandamála með heyrn, sjón og jafnvægi,“ sagði í yfirlýsingu frá teymi Joels sem birt var á opinberum samfélagsmiðlareikningi hans í dag en Hollywood Reporter greinir frá.

Joel, sem er orðinn 76 ára, bætir við: „Mér þykir afar leitt að valda aðdáendum okkar áhyggjum og takk fyrir ykkar skilning.“

Joel, söngvarinn á bak við slagara á borð við Piano man, stefndi í tónleikaferðalag þar sem hann hugðist spila á 17 tónleikum í Norður-Ameríku og Englandi.

Hann hafði þegar frestað ferðalaginu um fjóra mánuði eftir að hafa gengist undir aðgerð.

 

til baka