Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að Los Angeles-borg sæti árásum erlends óvinar og heitir því að frelsa borgina vegna mótmælanna síðustu daga.
Trump hélt harðorðaða ræðu í tilefni þess að seinna í vikunni verður fagnað 250 ára afmæli Bandaríkjahers. Kallaði hann mótmælendurna í Los Angeles dýr í ræðunni.
Fékk hann viðstadda til að baula á Gavin Newsom, ríkisstjóra Kaliforníu, og Joe Biden, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.
„Þetta stjórnleysi mun ekki líðast. Við munum ekki leyfa að ráðist sé á alríkisstarfsmenn og við munum ekki leyfa að erlendur óvinur ráðist inn í og leggi undir sig bandaríska borg,“ sagði Trump við hermenn í Fort Bragg í Norður-Karólínuríki.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/06/10/skodar_ad_beita_lagaakvaedi_fra_1807/
Þúsundir hermanna kallaðir til
Lýsti hann mótmælendum sem „dýrum“ sem „bera stolt fána annarra landa.“
Trump tók ákvörðun um að senda þúsundir þjóðvarðaliða til borgarinnar auk 700 landgönguliða til að standa vörð í mótmælunum.
Gavin Newsom hefur gagnrýnt Trump harðlega fyrir afskiptin og segir hann hella olíu á eld mótmælenda.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/06/10/los_angeles_hefdi_brunnid_til_osku/