Viðskiptaráð Íslands hefur kvartað við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) undan ólögmætri aðstoð hins opinbera við húsnæðisfélög og óskar rannsóknar á því hvort sá stuðningur brjóti gegn ákvæðum EES-samningsins.
Spjótunum er beint að stuðningi við svokölluð „óhagnaðardrifin“ leigufélög, sem flest tengjast launþegahreyfingunni.
Þau leigja út íbúðir, sem byggðar hafa verið á þeirra vegum, töluvert undir því sem tíðkast á hinum almenna markaði, enda telst Viðskiptaráði til að stuðningur hins opinbera jafngildi 46% niðurgreiðslu á lóða- og byggingarkostnaði nýrra íbúða þeirra.
Hins vegar nýtur allur almenningur ekki þeirrar niðurgreiðslu, þar sem úthlutun íbúða er jafnan háð því að umsækjandi eigi aðild að bakhjarli, yfirleitt í launþegahreyfingunni.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/01/18/yfir_helmingsmunur_a_leiguverdi_eftir_leigusala/
64 milljarðar í Reykjavík
Umrædd aðstoð er veitt með þrennum hætti, sem meta má til fjár: beinum stofnframlögum frá skattgreiðendum, lóðaúthlutun á afslætti, sem ekki er bókfærður sem opinber útgjöld, og niðurgreiddum lánum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Umfang þeirra lánaniðurgreiðslna liggur ekki heldur fyrir opinberlega.
Þegar nær helmingur lóða- og byggingarkostnaðar íbúðafélaganna er greiddur af almannafé er varla að undra að þau geti boðið heldur betri kjör en tíðkast á almennum markaði. Það grafi hins vegar undan heiðarlegri samkeppni og jafnræði, bæði innanlands og á EES-svæðinu öllu.
Ekki eru litlar upphæðir í húfi en bent er á að aðeins í Reykjavík eigi að reisa 9.250 nýjar íbúðir á árunum 2024-2033, en 3.070 íbúðir eða þriðjungurinn eigi að falla „óhagnaðardrifnum“ íbúðafélögum í skaut. Niðurgreiðslur skattgreiðenda vegna þeirra nemi 64 milljörðum króna.
Lesa má nánar um málið á bls. 6 í Morgunblaðinbu og í Mogga-appinu í dag.