Ný heilsugæslustöð Uppsveita opnaði við Hrunamannaveg 3 á Flúðum í dag og hefst starfsemi þar á morgun.
Gestum og gangandi býðst að kíkja á opið hús á milli klukkan 13 og 16 í dag.
„Þetta hefur verið langur aðdragandi,“ segir Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU, í samtali við mbl.is. Nýja heilsugæslustöðin sé upphaf spennandi vegferðar í heilbrigðisþjónustunni fyrir uppsveitir Árnessýslu.
„Við breyttum nafninu á heilsugæslunni. Við köllum hana núna heilsugæslu Uppsveita til að endurspegla tenginguna við allt svæðið.“
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/06/24/stor_afangi_i_hrunamannahreppi/
Íbúar þurfi ekki að sækja apótek á Selfossi
Díana segir samfélagið fara ört vaxandi og því hafi verið þörf á að efla aðgengi íbúa að góðri og öruggri heilbrigðisþjónustu. Einnig hafi verið þörf á að þróa heilsugæsluna samhliða annarri þjónustu á svæðinu.
Fyrir rúmum tveimur árum lokaði t.a.m. apótekið sem stóð við heilsugæsluna í Laugarási, þar sem hún var áður. Við þetta myndaðist gat í þjónustunni og varð fólk að sækja lyf og aðra apóteksþjónustu á Selfoss.
„Þannig að núna erum við mjög spennt fyrir því að það er að opna apótek við hliðina á heilsugæslunni, sem mun opna í byrjun árs 2026. Þannig erum við að styrkja þjónustu til íbúa til muna með því að hafa þessar þjónustur saman,“ segir forstjórinn.
Þrír fastráðnir læknar
Breytingunum fylgja þrír fastráðnir læknar á heilsugæslunni en hingað til hafa verktakalæknar komið og sinnt þjónustunni.
„Það er svo mikil festa í því að vera með fastráðna lækna á staðnum sem eru að byggja upp þjónustuna,“ segir Díana.
„Uppsveitir Árnessýslu eru í örum vexti og við viljum að heilbrigðisþjónustan vaxi með samfélaginu og sé nær þeim svæðum þar sem uppvöxturinn er, sem eru aðallega þéttbýliskjarnarnir í kringum Flúðir og Reykholt eins og staðan er núna.“