mið. 5. nóv. 2025 13:10
Bubbi Morthens og Símon Birgisson.
Bubbi tekur Símon á beinið: „Mál málanna á götunni“

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens greinir frá því sem hann segir slúður dagsins í borginni og mál málanna í menningarheiminum í nýrri Facebook-færslu.

Í færslunni fer Bubbi nokkuð hörðum orðum um leikhúsgagnrýnanda Vísis, Símon Birgisson, og tekur upp hanskann fyrir Baltasar Kormák Baltasarsson leikstjóra en Símon hefur farið ófögrum orðum um verk hans undanfarið.

„Er Símon Birgisson flopp sem skrifar leikhúsgagnrýni vegna þess að hann floppaði í efstu tröppu?“ skrifar Bubbi meðal annars.

Floppin hans Balta

Á dögunum birtist á Vísi gagnrýni Símonar um uppfærslu Þjóðleikhússis á leikritinu Íbúð 10B eftir Ólaf Jóhann Ólafsson en hún er í leikstjórn Baltasars Kormáks.

Símon gaf verkinu tvær og hálfa stjörnu og sagði það meðal annars vera vonbrigði og „augljóslega einhvers konar endurgerð eða útfærsla á leikritinu God of Carnage eftir Yasmine Reza“.

Þá ræddi Símon sýninguna sömuleiðis í hlaðvarpi sínu sem er framleitt af Vísi og setti hana í samhengi við þættina King & Conqueror sem fengu víðast hvar slæma dóma og Baltasar Kormákur leikstýrir sömuleiðis.

Í frétt sem var svo skrifuð upp úr þessari umræðu á Vísi er talað um verkin tvö sem „floppin í haust“.

https://www.mbl.is/folk/frettir/2025/08/28/bretar_taka_illa_i_nyjasta_verk_baltasars/

Í fýlu út í Þjóðleikhúsið

„Mál málanna á götunni og í menningarheiminum er Simon Birgisson sem sér um menningarumfjöllun á visir. Undanfarið hefur maður séð hjá honum endurtekna fýlueinkunn handa Þjóðleikhúsinu - nýjasta fyrirsögnin er Floppin hans Balta og er hann þá meðal annars að vísa til þess að Baltasar stýrir Íbúð 10B eftir Ólaf Jóhann sem Símon er mjög óánægður með,“ skrifar Bubbi í upphafi færslunnar.

Hann tekur þá fram að hópur af fólki í kringum hann sem hefur séð verkið finnist uppfærslan takast vel.

 

„Símon hefur fullt leyfi til að vera í fýlu út í Þjóðleikhúsið og stjórnendur þess, hann má líka taka niður allar sýningar Þjóðleikhússins. Hins vegar er Baltasar búinn að afreka hluti í kvikmyndageiranum á Íslandi sem eiga sér ekki hliðstæðu,“ segir Bubbi og heldur áfram með því að lofa Baltasar sem einhvern helsta sviðslistamann og leikstjóra þjóðarinnar.

Er Símon Birgisson flopp?

Þá heldur hann því fram að fólk veiti því athygli hve iðinn Símon virðist vera við að gefa sýningum Þjóðleikhússins neikvæða gagnrýni:

„Við sem fylgjumst með skrifum Símons erum að spá í hversu mörgum sýningum hann nær að gefa falleinkunn hjá Þjóðleikhúsinu og fullt hús hjá Borgarleikhúsinu á leikárinu. Sumir segja að frábæru dómarnir sem Borgó fær komi til af því að Símon grimmi sé að hefna sín á Magnúsi Geir en auðvitað trúir því enginn maður.“

Seinna í færslunni skrifar Bubbi svo: „Líka má spyrja sig: er Símon Birgisson flopp sem skrifar leikhúsgagnrýni vegna þess að hann floppaði í efstu tröppu?“

Þá segist hann sjálfur vera á leiðinni á verkið og muni tjá sig frekar um það að þeirri leikhúsferð lokinni. En að eitt sé víst og það er að „Balti er ekki flopp“.

„Verk hans eru misjöfn eins og gerist og gengur en floppin hans eru engin nema þá í huga þeirra sem standa í skugga hans út af stærð hans.“

 

 

 

 

 

til baka