mið. 5. nóv. 2025 13:45
Ragnar segir að aldrei hafi jafn íþyngjandi kröfur verið lagðar á viðsemjanda ríkisins.
„Við látum ekki bjóða okkur svona vinnubrögð“

Formaður Læknafélags Reykjavíkur, Ragnar Freyr Ingvarsson, kallar eftir því að frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingar á lögum um Sjúkratryggingar Íslands verði dregið til baka. Hann segir heilbrigðisráðherra ekki hafa haft neitt samráð við hlutaðeigandi aðila við vinnslu frumvarpsins en að slíkt sé brýnt þegar svo viðamiklar breytingar eru boðaðar. 

Þetta kemur fram í viðtali við Ragnar í nýjasta tölublaði Læknablaðsins

Hann segir frumvarpið vera aðför að sjálfstætt starfandi heilbrigðisfólki sem kunni að hafa í för með sér mikinn kostnað fyrir lækna. Ragnar segir að ef frumvarpið verði samþykkt í lög munu sjúklingar þurfa að leggja út fyrir allri heilbrigðisþjónustu sem þeir þiggja hjá sjálfstætt starfandi læknum.

„Við verðum að hætta að senda reikninga fyrir hönd sjúklinga til Sjúkratrygginga. Til að setja í samhengi, þá sinna sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn um 10.000 sjúklingum á dag og hver og einn sjúklingur yrði þá að innheimta endurgjald hjá Sjúkratryggingum.

Ráðherra virðist því vera að teikna upp tvöfalt heilbrigðiskerfi, sem enginn hefur áhuga á - hvorki ríkið né sjúklingarnir. En það segir sig sjálft að við munum ekki sitja undir þessu, við látum ekki bjóða okkur svona vinnubrögð. Við verðum tilneydd til að hætta samskiptum við Sjúkratryggingar. Hið opinbera verður svo að finna út úr því hvernig sjúklingar fá endurgreitt,“ segir Ragnar.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/10/13/nyju_frumvarpi_hardlega_motmaelt/

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/10/11/rikid_akvedur_hvad_thad_kaupir/

Ríkið stjórni hvernig fyrirtæki séu rekin

Frumvarpið var birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda í síðasta mánuði. Það felur í sér ýmsar breytingar á lögum um sjúkratryggingar m.a. er lagt til að óheimilt verði að krefja sjúklinga um aukagjöld þegar þjónustuveitandi fær greitt skv. gjaldskrá Sjúkratrygginga.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að rekstur verði í formi hlutafélags eða einkahlutafélags, þó er heimilt að víkja frá því ef starfsemin er umfangslítil eða ekki rekin í ágóðaskyni. Ragnar segir þessa breytingu fela í sér gríðarlegan kostnað.

„Þarna eru veigamiklar breytingar á stöðu sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks, meðal annars kröfur um breytt rekstrarform sem felur í sér gríðarlegan kostnað. Einnig er verið að hafa áhrif á innra skipulag fyrirtækja, þannig að ríkið er að reyna stjórna því hvernig við rekum fyrirtækin. Þá yrðum við krafin upplýsinga um rekstur og bókhald sem ekki er gert við önnur fyrirtæki sem eiga í samningssambandi við ríkið,“ segir Ragnar í viðtali við Læknablaðið.

Hann segir að aldrei hafi jafn íþyngjandi kröfur verið lagðar á viðsemjanda ríkisins.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/10/02/gjald_fyrir_ad_maeta_ekki_i_bokadan_tima/

til baka